Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 107
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
313
Hér sýnist mér að sambandið við útlönd skipti meginmáli en hins-
vegar þykir mér Halldór gera of mikið úr menningarborginni Reykja-
vík í þessu sambandi. Þegar Bréf til Láru kom út, segir Halldór, voru
íbúar Reykjavíkur „alltént orðnir 25 þúsund" (18). Halldór kennir
Reykjavík þriðja áratugarins við ,,evrópsk[a] stórborg í vasabroti“
(31); Stein Elliða kallar hann „barn stórborgarinnar" (181); Halldór
Laxness og Þórbergur eru sagðir „boða[...] stórborgarlíf“ (128). Hall-
dór vitnar í þau ummæli Laxness, skrifuð á Sikiley 1925, að Reykjavík
hafi „í skjótri svipan eignast hvaðeina, sem heimsborg hentar, ekki að
eins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig football og hómósexúal-
isma“ (125; úr grein Laxness, „Af íslensku menningarástandi“, sem
birtist upphaflega í Verði 1925 en er endurprentuð í greinasafninu Af
menningarástandi, Vaka-Helgafell, Reykjavík, 1986; tilvitnuð orð eru
á bls. 17 í þeirri bók). Verður ekki annað séð en Halldór Guðmunds-
son hafi gleypt hina stílfærðu lýsingu nafna síns á Reykjavíkurlífinu
nokkurnveginn hráa. Það gerir hann hinsvegar ekki þegar hann minn-
ist á orð sem Laxness leggur Steini Elliða í munn í Heiman egfór (sem
höfundur lauk ekki við en er undanfari Vefaransmikla): „Um Reykja-
vík, þetta ofvaxna smáþorp með rösklega 20 þúsund íbúum, segir
Steinn Elliði „borgin er óslitin tíbrá af æfintýrum““(170). Og Halldór
Guðmundsson bætir við að þessi nútímamaður höfundar sé „bók-
menntaminni: Persóna sem varð til í huglægri sjálfhverfu aldamóta-
bókmennta. Og til að setja slíka skepnu niður á Islandi þarf Halldór að
grípa til sterkra stílbragða, því svo langt var menningarbyltingin ein-
faldlega ekki komin“. Samt er Heiman egfór skrifað 1924, sama ár og
Bréf til Láru kemur út, en það telur Halldór ásamt Vefaranum mikla
vera upphafsverk íslenskra „nútímabókmennta" og birta módernísk
viðbrögð við „menningarbyltingunni“.
Eg ætla ekki að rýna frekar í þessa ráðgátu, en skyldi ekki vera nær
lagi að kalla Reykjavík „ofvaxið smáþorp“ (án þess að slíkt þurfi að
vera neikvæð nafngift) heldur en litla „stórborg“? Aherslan sem Hall-
dór leggur á borgarlífið hlýst af því að hann vill skýra módernismann
með hliðsjón af nýju félagslegu samhengi bókmenntasköpunar. Það
„nútímasamfélag" sem hér var í mótun á þessum tíma samsvarar
kannski því borgaralega samfélagi sem með vexti millistétta, kapítal-
isma og borga varð til á meginlandi Evrópu á 18. og 19. öld. Jafnframt
verður til opinber stjórnmála- og menningarvettvangur og landið tek-
ur að „opnast“ í ríkara mæli en áður. En stórborgin, skrímslið sem
virðist taka völdin af manneskjunni með tækni sinni, hraða, hávaða,
endalausu flæmi bygginga og fólksmergð, gímaldið sem gleypir mann-
veruna og margir hafa skynjað sem helsta baksvið módernismans - hún
var alls ekki til hér (og er kannski ekki enn?).
Það sem meira máli skiptir, sýnist mér, er hvernig íslensk menning
tengist þeim menningarhræringum sem eiga sér stað erlendis, ekki síst