Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 71
SKIRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
277
Það er dálítið írónískt að með þessu gekkst Laxness að ýmsu
leyti inn á íorsendur „menntamannanna" - en Halldór Guð-
mundsson gerir í bók sinni mikið úr ágreiningi nýju rithöfund-
anna, Laxness og Þórbergs annars vegar, og hins vegar fræðimanna
sem börðust fyrir jafnvægi og þjóðlegri samfellu í menningu og
bókmenntasköpun. Þetta voru menn sem fundu að það var „ekkert
jafnvægi í Vefaranum mikla“, eins og Halldór Guðmundsson segir
um viðhorf Sigurðar Nordals (200). En í Sölku Völku og Sjálfstœðu
fólki fann Laxness jafnvægi sitt í raunsæislegri sagnalist. Peter
Hallberg segir að þróun Laxness, eftir að hann skrifaði Vefarann,
hafi að vissu leyti „verið í samræmi við menningarstefnu Nordals,
eflt hana og frjóvgað“.8 I stórbrotinni endurlífgun Halldórs Lax-
ness á raunsæisepíkinni má eflaust sjá eina af ástæðum þess að mód-
ernisminn lét ekki verulega að sér kveða í íslenskri sagnagerð fyrr
en á sjöunda áratugnum, þótt auðvitað eigi það sér fjölþættari fé-
lagslegar og bókmenntalegar skýringar.
Ekki gefst rúm til að gaumgæfa allar þessar bókmenntasögulegu
skýringar en ég tel að þótt módernismi í íslenskri skáldsagnagerð
hafi verið „möguleiki" síðan Bréf til Láru og Vefarinn komu fram,
þá verði hann ekki að viðmiði, virku samfelldu afli, fyrr en eftir
miðjan sjöunda áratuginn. Iþeim skilningi má líta á Tómas Jónsson
sem brautryðjandaverk. En jafnframt kallast Tómas á við hinar
eldri byltingartilraunir og liggur slík samræða að baki seinni hluta
ritgerðar minnar.
Þessi sögulega mynd nær að vísu ekki yfir smásagnagerðina;
í henni verður allmikil nýsköpun snemma á sjötta áratugnum
með sögum Thors Vilhjálmssonar og sögum eftir Astu Sigurðar-
dóttur og Geir Kristjánsson. Og auðvitað réðust ýmsar skáldsögur
á þessu millitímabili að rótum raunsæishefðarinnar, verk eins og
Gresjur guðdómsins eftir Jóhann Pétursson (1948), Ástarsaga eftir
Steinar Sigurjónsson (1958), Horft á hjarnið eftir Jóhannes Helga
(1958) og Gangrimlahjólið eftir Loft Guðmundsson (1958).
En þessar skáldsögur urðu ekki fyrirferðarmiklar í bókmennta-
sögu samtímans og af þeim spratt ekki virkur hugmyndaheimur,
svo vísað sé til áðurnefndra forsenda þess að nýtt viðmið verði til.
En Tómas Jónsson braut óvefengjanlega ísinn. Ég á ekki við að
hann hafi haft bein áhrif á önnur verk, heldur losaði hann um sköp-