Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 99
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
305
hef drepið á, verða persónurnar fórnarlömb textans, hann hindrar
að þær fái komið sér fyrir í Verkinu. Oll einkennast verkin af rót-
tækum efasemdum um að þau beri heildstæða, hvað þá sjálfstæða,
merkingu. Heimsmynd í þessum verkum er því brotamynd -
mynd af rústum.
Að baki textanum býr samt þessi sama heim(s)þrá persónanna.
Steinn, Þórbergur og Tómas eru allir útblásin sjálf og mikilmenni.
„Eg er sköpunarverkið sjálft í hryllilegum óttubjarma andvaka
sjálfsvitundar. [. . .] Eg vaki, sé, sé gegnum alt; ég er skygn; ekkert
fær leynst; ég er alt“ (193). Þessi orð Steins Elliða eru sem örvænt-
ingarfullt bergmál af þeirri fullyrðingu Þórbergs að sanna sælu sé
hvergi að finna nema í honum sjálfum, „því að ég er uppspretta allr-
ar sælu - vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (13). Tómas fær sig
heldur „aldrei saddan á að endurtaka eigin vegsemd. I mér býr
margþættur en mátulega viðráðanlegur guð. Eg hef sagnaranda“
(174). Þessi útþensla sjálfsins er að sjálfsögðu í og með skoplegur
þáttur í verkunum, einkum í textum Þórbergs og Guðbergs, en
hann birtir líka þá „guðdómlegu“ þörf sem persónurnar hafa til að
samstilla miðlæga stöðu sína og margflókna heimsmynd.
Steinn örvilnast frammi fyrir mannkyninu og heimsmyndinni.
„Eg ætla að reyna að tína mig saman. Eg er eins og vogrek á stángli
meðfram lángri strönd", skrifar hann föður Alban (157). Söguhetja
Vefarans leitar sífellt frá glundroða heimsins inn í þröngan og al-
tækan sannleika.
Söguhetjur og jafnframt sögumenn Bréfs til Láru og Tómasar
Jónssonar eru að sumu leyti miklu yfirvegaðri persónur. Þeir eru á
sinn hátt nýir baráttumenn Endurreisnar og Upplýsingar. Þeir eru
sífellt að skrásetja og flokka, vinna að ritgerðum, umsögnum og
álitsgerðum, gefa yfirlýsingar, velta vöngum, spyrja spurninga, og
ekki síst halda til haga ýmsum fróðleik og sögum. Þórbergur hand-
leikur beinlínis menningarþrífork Upplýsingarinnar, rétt eins og
vandamál sérhæfingarinnar hafi hvergi angrað hann: „Enginn, sem
eitt augnablik æfi sinnar hefir orðið snortinn af einhverju æðra en
nægjusemi svínsins, getur haft daglega fyrir augum sér heimsku,
vanþekkingu, rangsleitni og skipulagsleysi án þess að gera eitthvað
til að bæta úr því. Það rís gegn vísindaeðli hans. Það særir fegurð-
arsmekk hans. Það ofbýður réttletistilfinningu hans“ (34, skáletr.
20 — Skímir