Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 216
422
BERGLJÓT S. KRISTJÁNSDÓTTIR SKÍ RNIR
skáldskap. Fyrir utan stakar athugasemdir eins og: „Óðinn infact (leturbr.
bk.) had no sister" (143) eða „there is a fundamental botanical objection
(leturbr. bk.) to this interpretation“ (97), má nefna að Evans skýrir einstak-
ar vísur sjaldnast með hliðsjón af þeim sem á undan og eftir koma - þetta
gildir jafnvel þegar margar vísur í röð snúast um sama efni eða eru beinlínis
tengdar, t. d. með sömu upphafsorðum - og á formgerð minnist hann
naumast nema þegar hann telur Ijóðstafasetningu „ranga“. Nú er Evans
raunar ekki einn um að gefa eddukvæði út með þessum hætti. Oft hafa
skýringar við þau fremur líkst athugasemdum við einstaka greinar í annál-
um en útleggingum á ljóðlist. Með þessum orðum er ég síst af öllu að amast
við hinni fílólógísku aðferð við útgáfu kvæðanna. Menn mega hins vegar
ekki verða svo uppteknir af einstökum orðmyndum eða setningahlutum að
þeir missi yfirsýn; þeir mega ekki gleyma því að þeir eru að skýra heilt
skáldverk. Og umfram allt verða þeir að gæta þess að skáldskapur á borð
við eddukvæði er ekki einföld endurspeglun á samfélagsgerðinni, náttúr-
unni, menningarsvæðinu og öðru því sem mótaði höfund/höfunda hans.
Hér að framan hef ég nær einvörðungu talað um það sem mér þykir síst
í Hávamálaútgáfu Evans. Eg hef gert það vísvitandi - „til varnar skáld-
skapnum" svo að notuð séu orð Sigfúsar Daðasonar. A lofrollu þarf bók
Evans ekki að halda. Sem skilmerkileg og vel unnin handbók mun hún ó-
studd standa fyrir sínu.
Bergljót S. Kristjánsdóttir
Kristján Karlsson
LJÓÐ 1987
Almenna bókafélagið 1987.
Sú HUGSUN hlýtur að sækja að þeim sem skoðar skáldferil Kristjáns Karls-
sonar að ljóðagyðjan sé býsna óútreiknanleg og geti vitjað manna á ólíkum
tímum ævinnar. Því öfugt við alla þá sem geisast fram á ljóðvöllinn milli
fermingar og tvítugs með brauki og bramli en þrýtur svo örendi æ meir eftir
því sem á líður ævina, kemur Kristján ekki fram á sjónarsviðið sem höfund-
ur ljóðakvera, fyrr en tómahljóðið í kveðskap margra af hans kynslóð og
jafnvel næstu á eftir er löngu auðheyrt. A síðustu árum hefur hann sótt í sig
veðrið með hverri bókinni af annarri, með titlum sem bera keim af árbók-
um, þannig að ekki væri fráleitt að líkja honum við varamann í knatt-
spyrnuliði, sem kemur ekki inn á leikvanginn fyrr en að áliðnum leik, þegar
talsvert er farið að draga af hinum, og skorar hvert markið á fætur öðru.
En þótt Kristján hafi fram eftir ævi staðið álengdar og líkt og utan ljóð-
vallar, er þó engan veginn svo að hann hafi verið afskiptalaus um þá fögru
list, ljóðlistina. Hann hefur fremur sinnt henni á annan hátt, með fræðilegri