Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Blaðsíða 86
eitt þekktasta ljóð Jóhannesar með trúarlegu ívafi.56 Framan af einkennist
ljóðið af mikilli nánd og dulhyggju en þau fyrirbæri verða ekki sundur skilin
þótt þau þurfi auðvitað ekki að birtast bæði í senn eins og hér er raun á.
Jesús er besti bróðir ljóðmælandans, býr í hjarta hans og yfirgefur hann
aldrei þótt aðrir geri það. Hann er líka eina hlíf ljóðmælanda í hörðum
heimi. í þessu felst nándin og kemur hún fram í efnissniði ljóðsins eða
myndar sjálft þema þess. Dulhyggjan kemur aftur á móti fremur fram í
mynd- og málsniðinu: Rökkrinu rauða, reykelsinu og austurstjömunni á sál-
arglugganum en hún minnir á stjörnuna sem vitringarnir fylgdu að jötu
Krists. Nálægð Jesú er því raunveruleg en óræð, huglæg og tilfinningatengd
eins og í allri dulhyggju.
í þriðja erindi samsamar ljóðmælandinn sig Júdasi Ískaríót og böðlum
Jesú sem hæddu hann, húðstrýktu og krossfestu. Myndar þetta erindi hvörf
í ljóðinu en í tveimur síðustu erindunum glímir skáldið síðan við þverstæðu
þess að hinn krossfesti, deyddi Jesús skuli vera svo nálægur þrátt fyrir dauða
sinn. Þar gefur skáldið ekkert trúfræðilegt svar sem vísa mundi til upp-
risunnar heldur bregður fyrir sig dulúð fremur en dulhyggju:57 „... því hvað
oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf/sem enginn getur drepið“.58
Þessi orð sýna að þrátt fyrir heiti ljóðsins og þá staðreynd að Krists-
heitið er algerlega sniðgengið í ljóðinu er skáldið í raun ekki að yrkja um
hinn sögulega Jesú Maríuson heldur „alheimslegan" eða „kosmískan“ Krist
sem stendur utan tíma og rúms, tilheyrir eilífðinni og deyr aftur og aftur,
e.t.v. með öllum sem líða og þjást þótt það sé ekki nefnt sérstaklega. I loka-
erindinu bregður skáldið svo á allt annað ráð og talar um Jesú afturgenginn
eins og rætt var hér að framan. Erindið hefst hins vegar á því að ljúka upp
tilvistarlegri (,,exístensíalískri“) vídd sem bregður í senn upp afdrifaríku
andartaki sem skáldið telur að bíði sérhvers manns og varpar ljósi á eðli
þess Jesú sem kveðið er um í ljóðinu: „Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt
kvöld/sem mannlegleikans kraftur .,.“.59
Skáldið væntir þess með öðrum orðum að nálægð Jesú muni skyndilega
verða raunverulegri í lífi sérhvers manns en í fyrri hlutanum þar sem
nálægðinni er lýst á andlegum nótum dulhyggjunnar. Þá muni eðli Jesú
opinberast sem frumkraftur eða frummynd mennskunnar. Hér mætum við
e.t.v. dulbúnu endurkomu-stefi kristninnar sem boðar að við endi aldanna
56 Kristur er aftur á móti fyrirferðarmikill í öðrum ljóðabókum Jóhannesar. Hjalti Hugason 2004.
57 Með dulhyggju er hér átt við trúarlegt fyrirbæri (mystik) sem birtist í því að hið innhverfa og tilfinninga-
lega tekur yftrhönd í trúarlífmu. Með dulúð er aftur á móti vísað til hugmynda um eða tilfmningar fyrir
hinu yfimáttúrulega almennt. Dulúðin þarf því ekki að vera trúarleg heldur getur hún tengist óljósum hug-
myndum um einhvern veruleika handan hins efnislega og stundum því sem kallað er hjátrú.
58 Jóhannes úr Kötlum 1976: 23.
59 Jóhannes úr Kötlum 1976: 24.
84