Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Blaðsíða 91
MÚLAÞING
89
hefur ekki skrifað í dagbækurnar, einkum síðari hluta nokkurra sumra.
Virðist sem hann hafi síst sest niður við skriftir um heyskapartímann.
En hann hefur oft skrifað yfirlit um þau tímabil, sem vantar, þegar
hann byrjar aftur að færa inn í dagbækurnar. Nokkur af þeim eru birt
undir fyrirsögninni Ymis atvik í Víðidal hér í þessari samantekt. Hann
skrifar í dagbókina nokkra daga eftir að þau flytja frá Grund tif Bragða-
valla vorið 1897. Síðan líða 5 ár sem hann skrifar ekki í bókina en hann
skrifar næst í hana árið 1902. Þar næst skrifar hann í bókina árið 1906
og heldur því áfram til 1920, en þá hættir hann því alveg. A.m.k. er ekki
vitað um fleiri dagbækur. Þær spanna því yfir 25 ára tímabil, þó að
tvisvar vanti fimm ár: 1897 - 1902 og 1903 - 1906. Þessar dagbækur eru
alveg einstæðar í sinni röð, vegna þess að þær greina frá búskap, þar
sem við hina ótrúlegustu aðstöðu og erfiðleika var að etja, á nútíma
mælikvarða. Raunar voru þeir feðgar frægir í sögnum meðal fólks á
Austurlandi og í Skaftafellssýslum fyrir þennan búskap sinn í Víðidal.
Má hiklaust telja íþrótt að leysa þá raun svo af hendi að viðhlítandi væri
til lífsbjargar fyrir fjölskyldu. Færsla hvers einasta dags byrjar á stuttri
veðurlýsingu og síðan er tilgreint hvað gert var þann dag. Frásögnin er
hlutlaus en þó einlæg, gagnorð og laus við kvartanir yfir erfiðleikunum.
Alltaf virðist hafa verið sjálfsagt að ljúka hverju því, sem að kallaði og
það var aldrei dregið til næsta dags, enda lá lífsbjörg heimilisins við. Er
nú komið að því að gera grein fyrir síðustu fjölskyldunni í Víðidal og því
fólki, sem hjá henni var. Einnig verður tilgreint, hvenær vinnufólkið
dvaldi þár. Heimilda er leitað í dagbækur Jóns, kirkjubækur Stafafells-
kirkju og Hofskirkju í Alftafirði, Ættir Austfirðinga eftir sr. Einar Jóns-
son, Austurland - safn austfirskra fræða 4. og 7.bindi, Byggðasögu
Austur-Skaftafellsýslu svo og frásögn Helga Einarssonar, er nefnist
Lifnaðarhættir í Víðidal. Að þessari síðast töldu frásögn er ómetanlegur
fengur.
I prestsþjónustubók Stafafellskirkju, skránni um innkomna í sóknina
árið 1883 eru eftirfarandi nöfn á þremur persónum, sem flytja frá
Hvannavöllum í Hofssókn í Alftafirði og setjast að á nýbýlinu Grund í
Víðidal: Sigfús Jónsson bóndi, Ragnhildur Jónsdóttir kona hans og Jón
sonur þeirra.
Faðir Sigfúsar var Jón Guðmundsson bóndi á Vaði í Skriðdal. Móðir
Sigfúsar hét Guðný Jónsdóttir og var frá Kelduskógum á Berufjarðar-
strönd. Eftir lát Jóns giftist Guðný Arna Sveinssyni prests í Berufirði og
bjuggu þau á Hálsi og Hærukollsnesi. Sonur þeirra var Jón Arnason
bóndi á Múla í Alftafirði. Ættir Sigfúsar eru fjölmennar á austanverðu