Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1984, Blaðsíða 145
múlaþing
143
aftur, því sumt af hlaupinu er ómögulegt að verka. Við fengum 67 hesta
af öllu heyi í sumar, þar af 30 af töðu og var hún hroðalega hrakin og
mikið af útheyinu illa fengið h'ka.
1907, 17. maí: Alheiðríkt veður allan daginn og við allir að moka grjót
og sand. Pabbi fór út í Djúpavog með Stebba á Hamri en við Steini að
moka grjót og sand og mamma er alltaf með. Og mest verkar hún
saman í hrúgur og Steini ekur mestu og pabbi en ég ek svo sem engu;
ég þoli það ekki.
1907
27. júlí: Heiðskírt allan daginn og landstæður og gott veður. Þeir pabbi
og Steini gengu hér uppi og kl. 8 fóru þeir út að Hálsi eftir nauti. Við
búnir að fá 5 silunga síðan á mánudag og ég bjó um kýrnar uppi í
sumarfjósi. I gærdag var Steini að taka ofan af hjá staginu og mamma
alltaf að moka og bera grjót og sand, þegar fært hefur verið síðan á
einmánuði, að farið var að verka túnið eftir hlaupið í fyrra sumar. Dagur
á Melrakkanesi færði mér sel feitan og magran og Helgi sendi mér sel
líka, bæði spik og megru.
Sumarið 1907 var byggt nýtt íbúðarhús á Bragðavöllum og mun síst
hafa verið vanþörf á því. Gömlu kofarnir hafa verið komnir að falli.
Fjölskyldan naut þá drengilegrar hjálpar nágrannanna, bæði við efnis-
aðdrætti og bygginguna sjálfa. Auðunn Halldórsson, náfrændi Jóns, bjó
þá á Veturhúsum í Hamarsdal en Stefán Sigurðsson bjó þá á Hamri.
Þessir tveir menn munu mest hafa hjálpað þeim til einkum við hús-
smíðina.
21. apríl: Pabbi og Steini fóru út á Djúpavog að taka út timbur til
hússins sem á að rísa hér á holtinu ef guð lofar.
24. maí: Auðunn, Helgi og Steini fóru út á Djúpavog að sækja trjávið-
inn. Timbrið kom kl. 11 um kvöldið - settu allt upp í Hólvíkina og
mennirnir voru 10.
Næstu daga unnu Sigfús og Þorsteinn við að flytja timbrið frá sjó og
sement heim. Inílúensufaraldur tafði fyrir framkvæmdum en hið nýja
hús reis þó af grunni í júní og júlí um sumarið, enda bættist nú öflugur
liðsmaður í hópinn. Það var Ivar Halldórsson, bróðir Auðuns, sem áður
er nefndur. Þau fluttu í nýja húsið 20. september en eldavél var þó ekki
sett niður þar fyrr en 11. desember og var því eldhús gamla bæjarins
notað þangað til. Þann 31. desember komu tveir menn, Stefán á Hamri
og Lúðvík á Hótelinu (á Djúpavogi) og virtu húsið á 1800 krónur.