Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 53
MÚLAÞING
51
Ekki mega Héraðsmenn þó gleyma þeim félagsskap, sem var að
hefjast um verslun á Héraði fyrir forgöngu Guttorms á Arnheiðarstöð-
um er hann féll frá árið 1856. Þar með leið sá félagsskapur undir lok
til skaða fyrir Fljótsdalshérað og landið allt.
Þórhallur Jónasson á Breiðavaði skrifaði grein, sem birtist í Samvinn-
unni árið 1940 og fjallar um 30 ára starf Kaupfélags Héraðsbúa. Þar
er minnst nokkuð á Pöntunarfélag Héraðsmanna. Tuttugu árum síðar
ritar svo Benedikt Gíslason frá Hofteigi 50 ára starfssögu kaupfélagsins.
Rekur hann nokkuð þátt pöntunarfélagsins og aðdragandann að stofn-
un þess. Báðir segja þeir að heimildir vanti frá fyrstu árum pöntun-
arfélagsins, því að gjörðabækur félagsins hafi glatast. Mun það rétt
vera en ekki þurfa þó allar heimildir að hafa týnst fyrir því. Það vill
svo til að í dagbókum Sæbjarnar Egilssonar á Hrafnkelsstöðum í Fljóts-
dal má finna veigamiklar upplýsingar um fyrstu 10 árin í starfsemi
félagsins, skrifaðar af manni, sem fylgdist vel með og hafði glögga
yfirsýn yfir hvaðeina í þjóðmálum, atvinnumálum, verslun og kunni
að fara með peninga.
Áður en lengra er haldið verður þó að gera grein fyrir dagbókarhöf-
undinum, Sæbirni Egilssyni. Hann fæddist árið 1836 og ólst upp í
Hvannstóði í Borgarfirði eystra. Á unglingsárum var hann við nám
hjá sr. Sigurði Gunnarssyni á Desjarmýri, en síðar á Hallormsstað.
Eftir tvítugsaldur dvaldist hann 4 ár á Klyppstað í Loðmundarfirði og
önnur 4 ár í Suðursveit, en fluttist í Hrafnkelsstaði árið 1869 og bjó
þar alla ævi eftir það. Hann lést árið 1894. Varðveist hafa dagbækur
frá síðustu 12 æviárum hans og þar skráir hann framvindu búskapar
og mannlífs, verslunar og félagsmála á Héraði. Auk daglegra færslna
ritar hann annál eða yfirlitsgrein hvers árs og gerir þar heildarmynd
ársins ljósari. Verður nú greint frá atvikum eftir dagbókunum en sumt
verður að skýra jafnóðum og tilvitnanirnar koma fyrir.
5. des. 1883: „við Jónas á Bessastöðum fórum út á norðurbæi að
leita eptir um samlög til verslunar á komandi sumri - þeirra sem skuld-
lausir eru. Öllum virðist nauðsyn bera til um þvílík samtök. Eg var
einnig að leita styrks handa prentsmiðjunni á Seyðisfirði, sem nú hefur
fengið prentleyfi og ætlar að fara að gefa út blað.“
6. des: - „ég fór inn á bæi í sömu erindum og í gær.“
Jónas (6336) var sonur Jóns Einarssonar á Víðivöllum ytri og bjó á
Bessastöðum. Sæbjörn og Jónas fóru „út á norðurbæi“ og er þá átt
við Bessastaðagerði, Mela, Brekku, Brekkugerði, Geitagerði og Arn-
heiðarstaði. Með því að fara „inn á bæi“ er átt við byggðina í Suður-