Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 114
112
MÚLAÞING
Nú leið fram á kvöldið, en þá fór sem Sigfús hafði spáð, það komu
nokkrir menn, Brúnvíkingarnir Stefán og Erlingur Filippussynir, Páll
Sigurðsson í Breiðuvík og Finnbogi Jóhannsson minnir Magnús. Þeir
hafa þær fréttir að færa að sunnlenskur maður, sem var þennan vetur
hjá Óla Styff og Jóhönnu Filippusdóttur á Glettinganesi, hafi lagt af
stað til Borgarfjarðar gangandi yfir Gletting, en hrapað til dauðs í
Hvalvíkurfláum, sem eru brekkur í þeirri hlið Glettingsins er að Hval-
vík veit. Mennirnir voru búnir að finna líkið og komu nú til Kjólsvíkur
að fá lánaðan sleða til að aka því norður að Bakkagerði.
Þeir fengu sleðagrindina og héldu síðan af stað, og nú tekur Erlingur
við sögunni af Magnúsi Guðmundssyni frá Kjólsvík. Framhaldið sagði
hann skrásetjara eitt sinn er hann var hjá Gissuri syni sínum á Eiðum,
líklega um eða upp úr 1960. Hann var þá háaldraður, en hressilegur
og kátur sem ungur væri.
Hann sagði að þeir tveir bræðurnir, hann sjálfur og annar hvor hinna,
Stefán eða Sigurður, einnig Finnbogi, hefðu farið með líkið norður.
Það má giska á að Páll í Breiðuvík hafi farið heim um kvöldið, a. m. k.
nefndi Erlingur hann ekki, og þeir hafi ekið líkinu norður daginn eftir,
en geymt það á sleðanum yfir nóttina á Hvalvík.
A. m. k. sóttu þeir það þangað frá Brúnavík og lentu í erfiðleikum
með að koma því niður bratta hjarnfönn úr Súludal niður í Brúnavík.
Þeir réðu ekki við sleðann í brattanum og tóku þá til bragðs að sleppa
honum. Ekki gátu þeir bræður stillt sig um að brosa er þeir horfðu á
eftir ökutækinu á fleygiferð niður brekkuna, og það sagði Erlingur að
lifandi maður hefði tæplega þolað þau skakkaföll sem ækið varð fyrir
á leiðinni niður á jafnsléttu. Bogi einn sýndi tilhlýðilega andakt.
Síðan drógu þeir sleðann norður yfir Brúnavíkurskarð og héldu
áfram framhjá Hofströnd og áleiðis að Bakkagerði. Þegar norður yfir
Fjarðará kom ákváðu þeir bræður að fara inn að Jökulsá, þar sem
Regína systir þeirra bjó, til gistingar. Nokkur krókur var að fara fyrst
með sleðann út að Bakkagerði svo þeir ákváðu að láta það bíða
morguns.
Svarðarhlaða nokkra áttu Bakkgerðingar á þessum slóðum og nú
fara þeir með ækið að einum hlaðanum, taka frá honum torf og setja
sleðann inn í rofið og ganga vel frá. Að því loknu varð öðrum þeirra
bræðra að orði: „Það er nú bara verst ef helsítið hann N. N. stelur
honum í eldinn í nótt.“ N. N. átti heima á Bakkagerði og hefur víst
verið grunaður um svarðarhnupl þegar á lá. Ekki geðjaðist Boga að
svona skrafi í návist dauðans. Hann ákvað að fara austur í Hofströnd