Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 46
44
MÚLAÞING
kaupa Albinus-vefstól, sem var smíðaður í Kolding á Jótlandi. Tryggvi
Gunnarsson kaupstjóri Gránufélagsins, keypti vefstólinn í Danmörku
og bauð Austfirðingum hann til kaups. Var hann fótknúinn og settur
upp á Ormarsstöðum. Hófst þar vefnaður veturinn 1880 - 1881. Þann
20. febrúar 1881 segir Sölvi Vigfússon á Arnheiðarstöðum í dagbók
sinni: „jeg fór út að Ormarsstöðum í Albinus-vefstólinn.“ Vefari var
í fyrstu Magnús Einarsson, sem hafði lært að fara með hann í Kolding.
Hann varð síðar úrsmiður og kaupmaður á Vestdalseyri í Seyðisfirði
og síðar í Færeyjum. Bækur Áskirkju minnast þó hvergi á Magnús.
Hvorki Sæbjörn Egilsson né Sölvi Vigfússon minnast á hann í sínum
dagbókum. Þó er fullvíst að hann vann við vefnað á Ormarsstöðum.
Hefur verið þar tíma og tíma en ekki talið sig þar til heimilis. En
taprekstur varð á vefnaðinum, Magnús taldi sig hlunnfarinn og er
hættur árið 1883. Hann var bæklaður á fæti, hafði komið mjög illa
saman við Albinus í Kolding og taldi að Tryggvi hefði komið í veg
fyrir úrsmíðanám sitt, sem „ég hafði náttúru fyrir og óskaði eftir og
sem ég var betur hentur til en að standa við vefnað.“ Þessi setning er
úr bréfi, sem Magnús skrifaði Tryggva frá Kaupmannahöfn sumarið
1883. Vefstóllinn þótti reynast illa á ullarband, vefarinn kenndi ullar-
bandinu og tóskap kvenna um en aðrir hafa líklega ekki talið Magnús
færan um verkið. Munu báðir aðilar hafa nokkuð haft til síns máls og
er raunar furðulegt að Tryggvi Gunnarsson skyldi fá fatlaðan mann til
að standa við fótknúinn vefstól.
í sóknarmannatali Áskirkju er Jóhann Frímann Jónsson talinn vinnu-
maður á Ormarsstöðum frá 1879 til 1883. Hann virðist þó hafa lært á
Albinus-vefstólinn og er sagður vefari árin 1884 og 1885. Þorvarður
Kjerúlf styrkir hann til að fara til Kaupmannahafnar og kaupa þar
tóvélasamstæðu: tætara, tvær kembivélar, lopavél og spunavél. Virðist
Jóhann Frímann hafa tekið alveg við rekstrinum eftir þetta af hlutafé-
lagi Múlsýslunga. Hann kom með vélarnar í Ormarsstaði og var byggt
yfir þær við Ormarsstaðaána, vatni veitt að húsinu, því beint með
tréstokk að eins konar túrbínu úr tré og þannig voru vélarnar knúnar.
Jóhann Frímann er nefndur vélstjóri í sóknarmannatalinu 1886 og
1887. Vefstóllinn mun alltaf hafa verið heima á Ormarsstöðum. Enn
sér fyrir rústum hússins í árbakkanum beint inn af gamla bænum á
Ormarsstöðum, aðveituskurðurinn er alveg heill og greinilegur og er
140 m að lengd. En stíflunni hefur áin rótað burt fyrir löngu. Kornmylla
bæjarins mun hafa verið þarna fyrir og eftir tíma tóvélanna og sjálfsagt
einnig meðan á rekstri þeirra stóð.