Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 109
MÚLAÞING
107
var á pottinn. Grindin var notuð undir þvættið meðan mesta bleytan
var að síga úr ullinni, og síðan var ullin sett á annan kláfinn. Við þetta
verk voru vanalega þrjár konur, en stundum fjórar, þá voru hafðar
tvær við að skola ullina upp úr kalda vatninu og voru þær með sína
körfuna hvor. Þær voru krjúpandi hlið við hlið á hurð sem lögð var
þvert yfir bæjarlækinn. Ullina höfðu þær á kláf til hliðar við sig, svo
krupu þær á tveimur pokum sem breiddir voru á hurðina og héldu
körfunni forstreymis mót læknum og skoluðu með annarri hendinni
en héldu körfunni með hinni í hæfilegri hæð. Ein stúlkan var ætíð við
pottinn og hafði hjálparmann við að bera að sér ull og frá sér þvættið.
Eftir því sem minnkaði í pottinum þurfti hún að bæta í hann vatni og
keytu, og sá hjálparmaður (eða kona) um að það væri fyrir hendi.
Á þessum árum var rúgur ætíð fluttur inn ómalaður og því voru
kornmyllur á nokkrum heimilum í hreppnum, þær voru mikið notaðar
bæði fyrir viðkomandi heimili og bæi í næsta nágrenni. Kornmylla var
á þessum bæ og hafði lengi verið. Mylluhúsið var byggt yfir bæjarlækinn
og hafði verið hlaðinn upp stokkur ofan við mylluna. Vatnið í stokknum
var um einn metri á breidd og rúmt fet á dýpt ofan við mylluna, en
lengdin á stokknum mun hafa verið um 10-15 metrar.
Ullin var þvegin við efri enda stokksins.
Eg var að sniglast þarna kringum stúlkurnar til að fylgjast með öllu
sem gerðist. Allt í einu sá eg lítinn silung í læknum. Eg fór nú að gá
betur að og sá þá fleiri. Það kom í mig veiðihugur og eg vildi fylgjast
með hvernig þeir höguðu sér, þeir voru mjög litlir. Eg gekk niður með
skurðinum og sá einn hverfa undir bakka mín megin. Þá hugsaði eg
að gaman væri að ná einum til að skoða hann. Eg lagðist nú niður á
bakkann og fór ofurhægt með höndina niður með bakkanum til að
þreifa eftir silungnum. Hann hefur séð höndina og skaust undan bakk-
anum, en um leið varð mér bilt við svo eg missti jafnvægið og stakk
báðum höndum niður í vatnið, en það var svo djúpt að höfuðið á mér
fór í kaf. Eg reyndi að draga mig til baka, en þótt fætur mínir lægju
uppi á bakkanum fann eg strax að eg hafði ekki kraft til þess. Eg
reyndi að kalla gegnum vatnið, en það hefur víst ekki heyrst neitt í
mér. Ef handstyrkur minn bilaði, þá mundi eg renna allur ofan í lækinn,
og hann mundi bera mig niður í mylluna þar sem ljóti trékarlinn með
spöðunum út frá sér mundi merja mig sundur í sínum stöðuga snúningi.
Það var búið að kenna mér mikið af versum og nú fór eg að rifja
eitthvað af þeim upp. Hve lengi eg var þarna veit eg ekki, en eg var
farinn að drekka eitthvað af vatni þegar einhver greip í fætur mér og