Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1988, Page 61
MÚLAÞING
59
„Hætt er við að kaupmenn standi mjög tæpt ef pöntunarfjelögin
verða víðtæk og langgæð. Pöntunarfjelag Hjeraðsmanna fjekk lánaðar
vörur hjá Zöllner kaupmanni í Newcastle fyrir 37000 kr. (innkaups-
verð) og borgaði þær að nokkru með 160 böllum af ull og um 2500
sauðum. Nettóverð í fjelaginu á ull var aura (hér vatnar töluna)
og meðalverð á sauðum að frádregnum kostnaði hér um bil 15,30 kr.
Verð á útlendri vöru með álögðum kostnaði er þetta - í stuttu máli,
ef borið er saman verð á útlendri vöru og innlendri í búð kaupmanns
og í búð pöntunarfjelags (þá hafa menn fengið í búð fyrir 135 kr. til
140 kr. sömu vöru, sem í fjelaginu hefir verið fyrir 100 kr. og orðið
að láta fyrir hana á sláturvelli 14 sauði tvævetra en í fjelaginu dugðu
7 sauðir hver á 15 kr. til að borga sömu vöru. Helfings ábati er í þessu
dæmi).
Pöntunarfjelagið heldur áfram og verða fyrir því hinir sömu og í
fyrra: Þ. Kjerúlf, G. Vigfússon og J. Bergsson, sem stendur fyrir af-
hendingu. Stærð þess verður nokkru meiri en hið liðna ár - þó eru
fjölda margir, sem ekki geta í því verslað vegna skuldaþungans við
kaupmenn. Þeir, sem skárri eru en þessir, reyna að komast af með þá
vöru, sem þeir geta fengið fyrir sauði en láta mikinn hlut ullar og tólgar
eða þá vöru alla ganga til kaupmanna upp í skuldirnar meðan þær eru
að borgast og segja svo skilið við þá, þegar það er búið. í pöntunar-
fjelaginu verða nú í ár þessir hreppar: Jökuldalur - að nokkru leyti -
austan ár og sömuleiðis nokkrir úr Jökulsárhlíð, Tunga, Hjaltastaða-
þinghá að nokkru leyti, Eiðaþinghá, Vellir, Skriðdalur, Skógar, Fljóts-
dalur, Fell. Úr Fljótsdal er nú pöntuð vara fyrir 530 sauði - hver
áætlaður á 13 kr verð og 5000 pund af ull. Hver maður í forstöðunefnd
á að hafa 50 krónur árlega og afhendingarmaður 3 per c. af faktúruverði
vörunnar, sem afhent er. Aðrir ekki láun.“
Á ofanrituðu má sjá að pöntunarfélagið er mótað verslunarfyrirtæki
með samvinnusniði, afrakstur starfseminnar þegar kominn fram í lækk-
uðu vöruverði vegna heildarsamtakanna. En að ýmsu þarf að hyggja
og nú bráðliggur félaginu á að eignast þak yfir vörubirgðir sínar á
Seyðisfirði. Þar var aðsetur pöntunarfélagsins alla tíð, utarlega á Búð-
areyri. Urðu það allmiklar húseignir á þeirrar tíðar mælikvarða, enda
varð pöntunarfélagið umfangsmesta fyrirtæki sinnar tegundar á Aust-
urlandi. En Slimon fjárkaupmaður virðist ekki hafa verið í tengslum
við pöntunarfélagið.
Höldum nú áfram að gá í dagbækur Sæbjarnar Egilssonar:
5. mars 1887: „Fundur á Valþjófsstað í pöntunarfjelagi Fljótsdæla.