Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 45
45
Sameining sókna.
Kirkjuþing 2011 ályktaði: „Kirkjuþing 2011 hvetur sóknarnefndir til að kynna sér kosti
sameiningar sókna innan prestakalla og hefja undirbúning að sameiningu þar sem
hentugt þykir og sátt næst um. Kirkjuþing beinir því til kirkjuráðs að fylgja málinu eftir
með kynningu og ráðgjöf til sóknarnefnda.“
Kirkjuráð samþykkti að vinna í frekari mæli að sameiningu sókna, í samræmi við ofangreinda
ályktun kirkjuþings.
Gjaldtaka sókna
Innanríkisráðuneytið hefur sent kirkjuráði erindi þar sem fram kemur að ráðuneytið telji
að þjónustugjöld vegna þjónustu sókna, til dæmis vegna kirkjuvörslu við útfarir, verði
að eiga sér lagastoð. Meðan að svo sé ekki sé gjaldtakan óheimil. Í svarbréfi kirkjuráðs
til ráðuneytisins er líst þeim skilningi að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag sbr. m.a. 1. og
2. grein þjóðkirkjulaga nr. 78/1997. Í 49. grein laganna segir að kirkjusókn sé sjálfstæð
fjárhagsleg og félagsleg eining. Sóknir kirkjunnar séu því frjáls félög og þurfi almennt ekki
að sækja heimildir til ríkisvaldsins um starf sitt og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu, sem
hverjum sem er, er í sjálfsvald sett að óska eftir og gjalda fyrir uppsett verð.
Kirkjuráð telur að sóknum sé í sjálfsvald sett hvort innheimt séu sérstök þjónustugjöld vegna
þjónustu sókna vegna kirkjuvörslu eða annarrar þjónustu og hefur sóknarnefndum verið
kynnt sú skoðun kirkjuráðs.
Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar
Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 13. gr. er m.a. kveðið á
um að niðurstöðu úrskurðarnefndar megi skjóta til áfrýjunarnefndar sem ráðherra skipi til
fjögurra ára í senn og hafi málsaðilar og kirkjuráð heimild til áfrýjunar. Áfrýjunarfrestur er
þrjár vikur. Úrskurðir úrskurðarnefndar koma því til kirkjuráðs til ákvörðunar um áfrýjun.
Mál 1/2011, sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson og Biskupsstofa, var vísað af Áfrýjunarnefnd
til úrskurðarnefndar til efnislegrar meðferðar. Úrskurðarnefndin hafði áður vísað málinu
frá. Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu málshefjanda um að fella úr gild ákvörðun biskups
Íslands frá 11. maí 2010 um skiptingu starfa í Selfossprestakalli. Sr. Kristinn Ágúst
Friðfinnsson hefur áfrýjað úrskurði nefndarinnar í máli 1/2011 til Áfrýjunarnefndar
kirkjunnar og er málið nú til meðferðar þar. Úrskurðirnir fylgja skýrslu þessari.
Leikmannastefna 2013.
Tvær ályktanir voru samþykktar á Leikmannastefnu. Annars vegar um friðun
Skálholtskirkju og nánasta umhverfis svo og ákvörðun um að Þorláksbúð skuli flutt af
núverandi stað. Hins vegar ályktun um sóknargjöld. Ályktanirnar fylgja skýrslu þessari.
Samningur þjóðkirkjunnar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Biskup hefur verið í viðræðum við stjórn Siðfræðistofnunar. Í gildi var samningur milli
kirkjunnar og stofnunarinnar um tiltekið samstarf, en sá samningur er runninn út. Unnið
er að gerð nýs samnings.