Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Page 61
61
Nefndarálit fjárhagsnefndar
Fjárhagsnefnd hefur farið yfir ársreikninga og fjárhagsáætlanir þjóðkirkjunnar, stofnana
hennar og sjóða. Nefndin fékk glöggt yfirlit um fjárhagsstöðu kirkjunnar, kröfur
ríkisvaldsins um hagræðingu á kostnaði vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs og tillögur
kirkjuráðs um lækkun framlaga á ýmsum sviðum til þess að mæta hagræðingarkröfu
ríkisins.
Sérstaklega var farið yfir fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar og sjóða kirkjunnar. Nefndin
þakkar skýra framsetningu reikninga og áætlana og yfirgripsmikil yfirlit og skýringar
á öllum rekstri sem undir þjóðkirkjuna heyra. Nefndin fór yfir endurskoðunarskýrslu
Ríkisendurskoðunar, en í skýrslunni er fjallað um ársreikninga embætta, sjóða,
stofnana og fyrirtækja þjóðkirkjunnar. Nefndin hafði einnig til umfjöllunar skýrslur
frá Ríkisendurskoðun um yfirlit um ársreikninga sókna fyrir árið 2012 og yfirlit um
ársreikninga kirkjugarða vegna ársins 2012.
Kirkjuþing þakkar safnaðarfólki um allt land sem lagt hefur svo mikið af mörkum á
erfiðum tímum niðurskurðar í fjármálum sóknanna.
Nefndin fékk á sinn fund vígslubiskup í Skálholti sr. Kristján Val Ingólfsson til að ræða
möguleika á útleigu gisti og veitingarekstrar í Skálholti ásamt öðrum málefnum tengdum
staðnum.
Fjárhagsnefnd beinir því til kirkjuráðs og biskups Íslands að áfram verði unnið að
eftirfarandi atriðum:
Innanríkisráðherra hefur skipað nefnd um sóknargjöld. Fjárhagsnefnd kirkjuþings 2013
treystir því að út úr því starfi komi ásættanlegur samningur við ríkið um framtíðarskipan
og innheimtu sóknargjalda, sem eru félagsgjöld.
Að fyrirhugaðar viðræður ríkis og kirkju um endurskoðun 3. greinar
kirkjujarðasamkomulagsins leiði til þess að staðið verði að fullu við kirkjujarðasamkomulagið.
Að haldið verði áfram að einfalda sjóðakerfi kirkjunnar og gera það gegnsærra. Eigi að
síður verður að gæta þess að sögulegum grundvelli og hlutverki sjóðanna samkvæmt
lögum sé haldið til haga.
Að framsetning fjárlaga verði þannig að skýrt sé að greiðslur til þjóðkirkjunnar séu
annars vegar á grundvelli kirkjujarðasamkomulags og hins vegar samkvæmt lögum um
sóknargjöld.
Að áfram verði miðlað ráðgjöf til sókna þjóðkirkjunnar á vegum Biskupsstofu og að
leitað verði leiða til að efla fjárhagslegt eftirlit með þeim. Sóknir og prófastsdæmi eru
hvött til að sameinast um verkefni eins og aðstæður leyfa til hagræðis og sparnaðar t.d. í
reikningshaldi, sameiginlegum útboðum og innkaupum.
Að mörkuð verði sú stefna að sérþjónustuprestar verði kostaðir af tekjum Kirkjumálasjóðs.