Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Page 63
63
Kirkjuþing afgreiddi fjármál þjóðkirkjunnar með eftirfarandi
þingsályktun:
Kirkjuþing 2013 afgreiðir ársreikninga þjóðkirkjunnar fyrir árið 2012 um einstaka
sjóði, stofnanir og viðfangsefni þjóðkirkjunnar athugasemdalaust. Farið hefur verið yfir
fyrirliggjandi endurskoðunarskýrslu til kirkjuþings frá Ríkisendurskoðun. Kirkjuþing
staðfestir að reikningshald kirkjulegra embætta, stofnana og sjóða fyrir árið 2012 hafi
hlotið fullnægjandi endurskoðun.
Undanfarin ár hefur þjóðkirkjan tekið á sig umtalsverða tekjuskerðingu þar sem greiðslur
til kirkjunnar hafa minnkað ár frá ári. Annars vegar er þar um að ræða lögbundin
sóknargjöld, félagsgjöld, sem ríkið innheimtir og hins vegar samningsbundnar greiðslur
vegna kirkjueigna sem ríkinu voru afhentar með sérstöku samkomulagi frá 1997.
Kirkjujarðasamkomulagið fjallar um afhendingu kirkjujarða til ríkisins á móti
skuldbindingu um að greiða laun presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan hefur
ekki vikist undan ábyrgð og fallist á skerðingu á kirkjujarðasamkomulaginu undanfarin
ár. Uppsöfnuð skerðing frá árinu 2010 vegna kirkjujarðasamkomulagsins er um 1,6
milljarður króna.
Sóknargjöldin eru lögbundin félagsgjöld sem ganga til reksturs safnaðanna um land allt.
Óumdeilt er að sóknir þjóðkirkjunnar hafa orðið fyrir mun meiri skerðingu en stofnanir
innanríkisráðuneytisins. Frá fjárlögum ársins 2008 til 2011 hafa sóknargjöld lækkað
sem nemur 25% umfram fjárveitingar til stofnana innanríkisráðuneytisins, samanber
skýrslu nefndar innanríkisráðherra til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi
þjóðkirkjunnar. Ríkið hefur nú viðurkennt þetta misræmi og hyggst bæta skerðingu
sóknargjalda undanfarinna ára að hluta með tímabundnu viðbótarframlagi. Engu að
síður vantar mikið uppá að sóknargjöldin séu í samræmi við lög nr. 91/1987. Uppsöfnuð
skerðing vegna sóknargjaldanna á árunum 2008 – 2013 er um 2,6 milljarðar króna.
Þjóðkirkjan og söfnuðir hennar hafa því orðið fyrir tekjuskerðingu er nemur í heild um
4,2 milljörðum króna á síðastliðnum fimm árum og getur það ekki haldið áfram óbreytt.
Innanríkisráðherra hefur skipað nefnd um sóknargjöld. Kirkjuþing 2013 treystir því að
úr því starfi komi ásættanlegur samningur við ríkið um framtíðarskipan og innheimtu
sóknargjalda sem eru félagsgjöld. Einnig að fyrirhugaðar viðræður ríkis og kirkju um
endurskoðun 3. greinar kirkjujarðasamkomulagsins leiði til þess að staðið verði að fullu
við kirkjujarðasamkomulagið.