Orð og tunga - 01.06.1988, Side 14
2
Orð og tunga
og lesmálsorð. Þessi hugtök verða best skýrð með dæmi og er lokaerindi XXV.
Passíusálms Hallgríms Péturssonar vel til þess fallið:
Son Guðs ertu með sanni,
sonur Guðs Jesú minn,
son Guðs syndugum manni
sonararf skenktir þinn,
son Guðs einn eingetinn,
syni Guðs syngi glaður
sérhver lifandi maður
heiður í hvert eitt sinn.
Orð er margrætt orð í íslensku og ef spurt er hve mörg orð séu í þessu erindi,
koma fleiri en eitt svar til greina eftir því hvaða merking er lögð í orðið. Annars
vegar getur svarið verið 32 orð þar sem hver eind í textanum er talin sem eitt orð.
Hér á eftir verður heitið lesmálsorð haft um þetta hugtak, þ.e. eind, eða orð (í
hinni almennu merkingu) í texta. I ofangreindu erindi er son fyrsta lesmálsorðið,
Guðs annað, ertu þriðja, með fjórða, sanni fimmta, sonur sjötta, Guðs sjöunda
... og sinn þrítugasta og annað lesmálsorðið.
Hins vegar getur svarið við spurningunni verið 22 orð þax sem litið er svo á
að manni og maður sé sama orðið og talið sem eitt. I þessum skilningi kemur
orðið sonur fimm sinnum fyrir í erindinu, Guð einnig fimm sinnum, maður og
einn tvisvar hvort en önnur orð aðeins einu sinni hvert. Þetta er það sem nefnt
hefur verið uppflettiorð eða flettiorð í orðabókum en Baldur Jónsson (1980:27-9)
notaði heitið lemma sem hann tók að láni úr erlendum málum. Hér verður orð
einskorðað við þessa merkingu, þ.e. eind í orðasafni, hvort sem um er að ræða
orðabók eða það orðasafn sem er hluti af málkunnáttu sérhvers manns.
Þriðja hugtakið sem þörf er að skýra er orðmynd en það voru einmitt orð-
myndir sem kannanir þeirra Ársæls Sigurðssonar (1940) og Baldurs Jónssonar
(1975) beindust einkum að (sjá nánar kafla 3.2 og 3.3). Orðmynd mætti skil-
greina sem mismunandi lesmálsorð. Þegar orðmyndir eru taldar eru þannig talin
saman þau lesmálsorð sem eru eins, t.d. eru upphafsorð vísuorðanna í erindinu
hér að framan son Guðs, sonur Guðs, son Guðs, son Guðs og syni Guðs tíu
lesmálsorð alls en aðeins fjórar orðmyndir: son sem kemur fyrir þrisvar sinnum,
sonur og syni einu sinni hvor orðmynd og Guðs fimm sinnum. I erindinu eru alls
26 orðmyndir.
Að síðustu er rétt að minnast á hugtak sem bregður fyrir í umfjölluninni
hér á eftir, beygingarmynd, sem er beygingarfræðilegt hugtak eins og nærri má
geta. Sérhvert orð sem getur beygst (í föllum, tíðum o.s.frv.) hefur ákveðinn
fjölda beygingarmynda. Þannig hafa langflest nafnorð 16 beygingarmyndir, í
fjórum föllum, eintölu og fleirtölu, með og án greinis. I töflu 1 eru t.d. sýndar
allar beygingarmyndir hvorugkynsnafnorðsins erindi. Af þessu beygingardæmi
sést að sama orðmyndin getur gegnt hlutverki fleiri en einnar beygingarmyndar
enda sýnir beygingardæmi þessa nafnorðs 16 beygingarmyndir en aðeins 10 orð-
myndir. Orðmyndin erindi getur t.d. gegnt hlutverki fimm beygingarmynda.
Skilgreining hugtaksins beygingarmynd gæti þá hljóðað svo: orðmynd með eitt
ákveðið beygingarlegt lilutverk.