Orð og tunga - 01.06.1988, Page 70
58
Orð og tunga
áhuga á orðasöfnun. Bréfið var dagsett 1. febrúar 1922 og hljóðar svo:
Kæri herra.
Eg treysti yður til að takast á hendur fyrir mig orðasöfiiun úr alþýðu-
máli í yðar sveit og útvega mér jafnframt annan mann í sveitinni, sem
getur og vill taka að sér að safna. Eg sendi yður hér með leiðarvísi
þann, sem eg hefi samið um orðasöfnun, og vona eg, að hann komi
yður að einhverju haldi. Samverkamaður yðar í sveit yðar fær annan
slíkan bækling, þegar hann hefir gefið kost á sér. Eg bið yður að
senda mér sem allra fyrst svar þess efnis, hvort þér getið orðið við
þessari málaleitan minni.
Virðingarfyllst,
Þórbergur Þórðarson.3
Þessum tilmælum Þórbergs var mjög vel tekið og liggja með gögnum hans í
Landsbókasafni fjölmörg bréf frá mönnum víða um land sem samþykktu að leggja
honum lið. Taldi hann sig hafa um 300 sjálfboðaliða þegar styrkurinn var felldur
niður. Höfðu honum þá borist sýnishorn af orðalistum frá sjálfboðaliðum og eru
nokkrir varðveittir í Landsbókasafni. Sumir þeirra manna er lögðu Þórbergi lið
urðu síðar heimildarmenn Orðabókar Háskólans.
I tengslum við orðasöfnunina fékk Þórbergur inni í dagblaðinu Tímanum með
þátt sem hann kallaði Orðabálk. Birtist hinn fyrsti 14. febrúar 1922 en síðan voru
smágreinar frá honum næstum í hverju tölublaði Tímans allt það ár og nokkru
lengur. Þær voru misjafnlega langar, stundum voru það aðeins tvö orð, sem
hann fjallaði um, stundum tíu eða tólf. Talsverð viðbrögð virðist hann hafa
fengið frá lesendum því að í Landsbókasafni eru varðveitt bréf til Þórbergs sem
honum voru skrifuð í tengslum við Orðabálkinn.
I Bréfi til Láru segir Þórbergur að orðasafn sitt sé milli 10 og 20 þúsund orð
og orðasambönd þó nær 20 þúsundum. Hann hafði þá hreinritað um þriðjunginn
af seðlunum og raðað í kassa í stafrófsröð en afganginn ætlaði hann að hreinrita
þegar orðabók Sigfúsar Blöndals væri öll komin út. Þórbergur vann sjálfur við
Blöndalsbók veturinn 1917-1918 (Sigfús Blöndal 1920-1924:xi) og lét þá Blöndal
í té afrit af þeim hluta safns síns sem hann hafði lokið við að hreinrita 1. janúar
1918.
Ekki virðist Þórbergur hafa lagt söfnun sína alveg á hilluna eftir að hann
missti styrkinn frá Alþingi. Hann hélt reglulega dagbækur og í þeim má finna
á víð og dreif orðalista og lítil orðasöfn, en einnig nokkra mállýtalista og við-
urnefnasafn. Veturinn 1925 til 1926 dvaldist hann erlendis, m.a. í Svíþjóð, og í
febrúar skrifar hann í dagbókina að hann hafi nú kynnt sér orðasöfnun í Svíþjóð.
Eitthvert fé fékk hann síðar því að árið 1928 er smástyrkur til hans á fjárlögum.
3Bréfið er varðveitt með handritum og skjölum Þórbergs í Landsbókasafni.