Orð og tunga - 01.06.1988, Page 82
70
Orð og tunga
4.2 Talmálssafnið
Efni það sem orðabókinni barst með ofangreindum hætti, varð brátt allmikið
að vöxtum. Það hefur verið yfirfarið og skrifað upp á seðla og þeir merktir
heimildarmönnum. Þessu er síðan raðað í stafrófsröð og á þann hátt gert svo
aðgengilegt sem kostur er á. Sýnishorn af seðlum eru birt á mynd 1.
I upphafi var tekin sú stefna að halda þessu efni aðgreindu frá megin-seðla-
safni orðabókarinnar og hefur á þennan hátt myndast með tímanum allstórt
sérsafn sem hér á vinnustaðnum gengur undir nafninu „Talmálssafnið“. I safni
þessu eru nú rúmlega 190.000 orðaseðlar en ekki er vitað hversu mörg einstök
orð er hér um að ræða því að oft eru margir seðlar um eitt og sama orðið.
4.2.1 Staðbundið orðafar
Hvað hefur svo þetta safn að geyma? Ekki eru tök á því að svo stöddu að lýsa
því til neinnar hlítar en þess skal freistað að drepa hér stuttlega á nokkur atriði.
Orðabókarmenn eru einlægt á höttunum eftir einhverju einkennilegu, sérstöku
og sjaldgæfu í máli. Talsvert hefur safnast af slíku efni en annars er erfitt að
dæma um það hvað er sjaldgæft; það fer eftir því við hvað er miðað. Ef fara
á eftir almennu máli, rituðu og töluðu, þá má segja að allt það sem þar er
sjaldheyrt eða sjaldséð eða kemur ekki þar fyrir, sé sjaldgæft og sérkennilegt. En
þegar talað er almennt um þetta, er einkum átt við ýmiss konar staðbundin orð
og orðatiltæki, atriði sem við endurteknar fyrirspurnir og nánari eftirgrennslan
virðist einungis þekkt mál og tiltækt fólki í fáeinum byggðarlögum, einu héraði,
nokkrum sýslum en stundum í heilum landshlutum. Vart er þá lengur hægt
að tala um sjaldgæft mál en stað- eða svæðisbundið má það kalla og stundum
sérstakt og einkennilegt. Oft er hér um að ræða orð og orðafar sem lýtur að
búskaparháttum, vinnubrögðum og veðurfari og er þá stundum í samræmi við
sérstöðu þess byggðarlags eða héraðs. En oft er hér um að ræða gamalt mál sem
er að hverfa.
Ekki er það með öllu ókunnugt að sama orðið getur haft mismunandi merk-
ingu eftir því hvar er á landinu. Stundum er hér um að ræða orð sem í sjálfu sér
eru alkunn og getur því merkingarmunurinn komið mjög að óvörum og valdið
misskilningi.
Eitt lítið dæmi, sem reyndar er ekki líklegt til að valda misskilningi og móðg-
unum, er t.d. orðið dauðyfli sem víðast hefur merkinguna ‘daufgerður maður og
latur, rolumenni’ en að auki er það sums staðar einnig haft í merkingunni ‘hræ,
dautt dýr á víðavangi’. Þessi merking í orðinu þekkist t.d. á Austurlandi og
norður í Þingeyjarsýslur, svo og um Skaftafellssýslur og eitthvað annars staðar
á Suðurlandi. Utan þessara svæða er hræ-merkingin lítt þekkt og víða alls ekki.
Þess má geta hér að í orðasafni Árna Magnússonar, sem minnst er á hér að
framan, er það nefnt að dauðyfli í merkingunni ‘hræ’ sé almennt mál á Austur-
landi. Benda þessi ummæli til þess að Árna hafi hræ-merkingin ekki verið töm
úr mæltu máli af heimaslóðum sínum. Hins vegar hefur hann þekkt orðið í þeirri
merkingu úr fornu máli og Björn Halldórsson (1814) nefnir einungis hana í orða-
bók sinni en í orðabók Blöndals (og orðabók Menningarsjóðs) er hræ-merkingin
talin gamalt mál og úrelt.