Orð og tunga - 01.06.2008, Qupperneq 92
82
Orð og tunga
(sjá 2.3.2). Heitið klambrarhnaus sést aðeins í þremur heimildum frá 18.
öld, en síðan ekki söguna meir. Um miðja 19. öld er klömbruhnaus kom-
ið í staðinn.40 Það orð komst ekki í orðabók Blöndals fyrr en í viðbæti
1924. A.m.k. sum þessara heita hafa verið staðbundin, en það hefir
ekki verið rannsakað sérstaklega.
Fljótt á litið mætti ætla að klömbruhnaus væri dregið af klambra (kv.),
en svo mun ekki vera. Líklegra er að það sé dregið af fleirtöluorð-
inu klömbrur (sbr. klömbrukjálki) eða öllu heldur að það sé til orðið við
umskipti, þ.e. skipt hafi verið um forlið, klömbru- sett í stað klambrar-
(sbr. 3.2.2). Hins vegar mun klambra vera stytting á klömbruhnaus. Slíkir
hnausar hafa í styttingar skyni verið kallaðir klömbrur, og þá kom það
af sjálfu sér að einn hnaus héti klambra.
Elsta beina dæmið um klömbrur í þessu hlutverki er úr Lesbók Morg-
unblaðsins 1. ágúst 1926. Þar birtist grein eftir „V. St.", þ.e. Valtý Stef-
ánsson (1893-1963), og nefnist „í Heiðarseli". Valtýr hafði farið Kol-
ugafjall ríðandi þá um vorið á leið frá Blönduósi til Sauðárkróks og
segir svo frá (bls. 4): „Þegar jeg kom niður undir tún í Heiðarseli,
hitti jeg drenghnokka, sem var að að flytja klömbrur í krókum".41
Síðan er ekki orð um þetta meir, en hnausar til hleðslu voru fluttir
á hestum í torfkrókum (um torfkróka sjá Bl.). Valtýr var fæddur og upp
alinn á Möðruvöllum í Hörgárdal og hefir verið vanur þessu orða-
lagi.
Þótt engin dæmi séu tiltæk um að hnausar heiti klömbrur fyrr en
komið er fram á 20. öld, eru um það nægar heimildir, síðan fræðimenn
og áhugamenn um horfna verkhætti fóru að lýsa klömbruhleðslu í rit-
um sínum.42 Meðal þeirra var sr. Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1856-
1918). í íslenskum pjóðháttum, sem komu út að honum látnum 1934, er
talað jöfnum höndum um klömbrur og klömbruhnausa, og þar kemur
40Elstu dæmi RM eru: 1. „séu það „klumbuhnausar" (klömbruhnausar) er skorið
fyrir þeim milli skurðanna" (Gestur Vestfirðingur 4. árg. 1854:68). - 2. „Vjer gjörum
ráð fyrir, að af vænum klömbruhnausum muni þurfa 2000" (Ársritið Húnvelningur
1857:83).
41Dæmið er fengið eftir tilvísun RM, en þar stendur ranglega: „flytja klömbrur í
krókinn".
42Sjá t.d. Sæmund Dúason 1967:136-139 og Guðmund Þorsteinsson frá Lundi
1975:102. - Eitt nýjasta notkunardæmið er á þessa leið: „Fyrstu tvö sumurin sváfu
þeir feðgar í tjaldi, en síðasta sumarið var byggður handa þeim kofi úr klömbrum og
torfi og tjaldaður striga að innan" (Úr torfbæjum inn í tækniöld, bls. 231). Hér er sagt
frá því, er Hans Kuhn prófessor var með sonum sínum við mæðiveikivarnir frammi
á Glerárdal 1947-1949.