Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 6
5
rænnar þekkingar,7 þar sem saman komi þær hugmyndir er flokkist undir
ranghugmyndir, hindurvitni, bábiljur, kerlingabækur, ó- eða andvísindaleg
lífsviðhorf og úrelta þekkingu. Myndhverfing „ruslakörfunnar“ er e.t.v.
ekki jafn upphafin eða seiðandi og „dulardjúpin“ sem vísað er til í yfirskrift
þessa inngangs, en hún er á margan hátt lýsandi fyrir stöðu dulspekinnar
innan vestrænnar menningarsögu. Segja má að dulspekin fái að nokkru
leyti breytta stöðu með upplýsingunni: á fyrri öldum var óhefðbundin
þekkingarleit fordæmd sem trúvilla en frá og með átjándu öld er henni
úthýst á forsendum vísindahyggju undir merkjum hjáfræði og fávisku. Við
pólitískar aðstæður samtímans, þar sem æ harðar er sótt að vísindalegri
þekkingu, er skiljanlegt að fræðimenn séu tortryggnir á gildi þess að beina
sjónum að þætti slíkra hugmynda í vestrænni menningarsögu. Gildir þar
einu hvort horft er til þeirra strauma nútímadulspeki sem áður eru nefndir
eða til rótgrónari dulspekihefða, svo sem gnóstíkur, hermetíkur, alkemíu,
kabbalisma, stjörnufræði, náttúruspeki eða galdralistar, en vikið er að öllum
þessum hefðum með einum eða öðrum hætti í greinunum sem hér birt-
ast.
Á hitt ber að líta að dulspekin er samofin sögu okkar vestrænu nútíma-
menningar. Fræðimenn kunna að finna hugarfró í því að líta á hugmyndir
dulspekinnar sem einskonar sögulegar dreggjar, sem í besta falli höfði til
sérvitra sagnfræðinga, eða í því að afmarka þær við tilteknar hreyfingar og
einstaklinga sem sökktu sér ofan í dulræn rit eða tóku virkan þátt í slíkri
starfsemi. Þáttur dulspekinnar er þó víðtækari en svo og í raun má líta á
hana sem einn þeirra meginþátta sem móta menningu nútímans. Þannig
hefur Christopher Partridge lagt til að í stað þess að einblína á afmarkaða
hópa eða skýrt skilgreindan vettvang dulspeki, sé gagnlegra að horfa til
víðara sviðs þess sem kalla má „dulmenningu“ (e. occulture) og er í raun
samofið hversdagslífi nútímans á jafn sjálfsagðan hátt og önnur svið.8
Þannig ætti m.ö.o. að vera jafn sjálfsagt mál að tala um áhrif guðspeki,
alkemíu eða spíritisma á skrif vestrænna listamanna og menntamanna og
t.a.m. um þau áhrif sem heimspeki Nietzsches, kenningar Marx eða sál-
greining Freuds kunna að hafa haft á skrif þessara sömu höfunda. Vandinn
er sá að á þessu er reginmunur: tengslin við skrif Nietzsches, Marx eða
Freuds eru alla jafna talin auka gildi verkanna og bera vott um framsækni
7 Sama rit, bls. 127.
8 Christopher Partridge, „Occulture is Ordinary“, Contemporary Esotericism, ritstj.
Egil Asprem og Kennet Granholm, London og New York: Routledge, 2014, bls.
113–133.
ÚR DULARDJÚPUM MENNiNGARiNNAR