Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 8
7
ar vaxandi borgarastéttar.10 Bergljót S. Kristjánsdóttir fjallar um lífsspeki
Þórbergs Þórðarsonar, eins þeirra íslensku höfunda sem sökktu sér ofan í
rit um dulræn efni á þessum árum. Grein hennar varpar ekki aðeins nýju
ljósi á þennan þátt í höfundarverkinu, sem fræðimenn hafa löngum vitað af
en lítið gert með, heldur sýnir hún einnig að dulspekin er að mörgu leyti
lykill að því að skilja þekkingarleit, þjóðfélagsgagnrýni og fagurfræðilega
afstöðu höfundarins. Benedikt Hjartarson fjallar um rit Helga Pjeturss,
Nýal, sem kom út í þremur bindum á árunum 1919 til 1922. Greinin tekur
á margbrotnu sambandi raunvísindalegra kenninga, dulrænna trúarhug-
mynda og nýstárlegra tjáningaraðferða í sérstæðri „lífgeislafræði“ Helga.
Greinarnar um verk Þórbergs og Helga taka þannig hvor með sínum hætti
á framlagi dulspekinnar til íslenskrar menningarumræðu á tímabilinu, en
vitaskuld birtist þetta framlag einnig í verkum fjölmargra annarra höf-
unda og listamanna. Hér leitar hugurinn m.a. að verkum Einars Jónssonar
myndlistarmanns og tengslum þeirra við guðspeki og aðra dulspekistrauma.
Verkið Morgunn, sem Einar vann á árunum 1931–1932 og prýðir forsíðu
þessa heftis, er lýsandi dæmi um þátt dulspekilegra íhugana í verkum lista-
mannsins, ekki aðeins í betur þekktum höggmyndum hans heldur einnig
í málverkunum frá síðari tíma ferilsins. Myndheimurinn sver sig í ætt við
norður-evrópskan symbólisma en í verkinu má einnig greina markvissa
glímu við táknheim dulspekinnar, sem birtist m.a. í vísunum í goðsögulega
heima, í gagnvirku sambandi manns og alheims og í ímyndum frjósemi,
andlegrar vakningar og endurfæðingar. Táknheimurinn er torræður en
lesendur munu finna einhverja lykla að túlkun á verkinu í greinum þessa
heftis Ritsins.
Hinar þemagreinarnar tvær færa okkur nær samtímanum og því tíma-
bili sem í samhengi dulspekinnar er gjarnan kennt við nýaldarhreyfingar.
Sólveig Guðmundsdóttir fjallar um hreyfingu aksjónismans í Vín og það
mikilvæga hlutverk sem dulrænar trúarhefðir gegndu í hinu þjóðfélagslega
uppgjöri í Austurríki á eftirstríðsárunum. Tengingin kann að koma nokkuð
á óvart í ljósi þess að jafnan er litið á aksjónismann sem lýsandi dæmi um
framsækna, veraldlega og ögrandi listsköpun er skori ríkjandi hefðir og
siðvenjur á hólm. Grein Sólveigar sýnir með hvaða hætti dulrænar trúar-
hugmyndir döfnuðu innan þess vettvangs gagnmenningar sem aksjón-
isminn spratt af og þjónuðu aðferðum helgimyndabrots og ögrunar við
10 Hér má benda á greinargóða umfjöllun Péturs Péturssonar í greininni „Trúarlegar
hreyfingar í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Þriðji hluti: Spíritisminn og dul-
trúarhreyfingar“, Saga 1/1984, bls. 93–172.
ÚR DULARDJÚPUM MENNiNGARiNNAR