Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 9
8
ríkjandi siðferðisleg og fagurfræðileg gildi. Loks fjallar Gísli Magnússon
um skáldsögu danska metsöluhöfundarins Peters Høeg, Den stille pige,
sem kom út 2006. Greining Gísla á hörðum viðbrögðum gagnrýnenda við
verkinu sýnir að afstaðan í garð andlegra strauma og dulrænna trúarhefða
markast af djúpstæðu óþoli í samtíma okkar. Greinin leggur til annars
konar lestur á verkinu, þar sem leitast er við að skilja verkið út frá mark-
vissri könnun á þeim andlegu hefðum sem þar er unnið með, en gagnrýn-
endur hafa lítið haft fyrir að setja sig inn í.
Þýddu greinarnar eru tvær. Í öðru tilvikinu er um að ræða frumútgáfu
á grein eftir Tessel M. Bauduin, sem hefur á síðustu árum látið að sér
kveða innan vettvangs nýrri rannsókna á dulspeki. Það er mikill feng-
ur fyrir Ritið að fá til birtingar þessa frumsömdu grein, sem færir okkur
aftur til umrótatímabilsins við upphaf tuttugustu aldar. Viðfangsefnið eru
verk sænsku listakonunnar Hilmu af Klint, sem ollu nokkru fjaðrafoki
þegar þau voru fyrst sýnd opinberlega árið 1986, á stórri yfirlitssýningu
um andlega strauma í nútímalist í Los Angeles og Den Haag. Síðan hafa
andleg verk af Klint skapað henni nokkurn sess sem einn af frumkvöðlum
abstraktlistar, en það hefur þó valdið listfræðingum nokkrum heilabrotum
að listakonan málaði verkin að eigin sögn í miðilsleiðslu. Bauduin víkur
ekki aðeins að margbrotnu sambandi miðilsstarfsemi og óhlutbundinnar
listsköpunar, heldur varpar hún jafnframt nýju ljósi á miðilshlutverkið og
tengsl þess við sjálfsmynd og kyngervi listakonunnar. Hin greinin er eftir
Andreas B. Kilcher og hefur að geyma safn af þekkingarfræðilegum rann-
sóknartilgátum um dulspeki. Greinin er í senn ögrandi tilraun til að ná
utan um þetta víðfeðma efni og beitt framsetning á þeim lykilspurningum
sem við er að etja þegar fræðimenn reyna að ná tökum á fyrirbrigði dul-
spekinnar og hlutverki þess í menningu nútímans. Kilcher dregur saman
margar þær meginhugmyndir sem glímt er við í hinum greinunum og
snúa að því hlutverki sem dulspekin gegnir sem vettvangur átaka, sáttaum-
leitana og sviptinga, þar sem tekist er á um afstöðuna til átrúnaðar, vísinda,
fagurfræði og þekkingar.
Loks birtist aftast í þessu hefti svargrein eftir Ásgeir Berg Matthíasson,
þar sem höfundur bregst við þremur greinum Guðna Elíssonar um starf-
semi Vantrúar.
Benedikt Hjartarson
BENEDiKT HJARTARSON