Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 25
24
framan greinir, en ekki gert t.d. ráð fyrir að Þórbergur grafi minningu um
mál Jóns upp úr undirvitundinni í skilningi nútímasálfræði: Í þeim nýjóga-
fræðum sem skáldið tileinkar sér er undirvitundinni skipað skör lægra
en yfirvitundinni og þar leggja menn annan skilning í hana en oftast nú.
Vivekananda telur undirvitundina tengda ósjálfráðum viðbrögðum manns-
ins og líkamsstarfsemi og segir að árangurinn einn skeri úr um hvort menn
hafi unnið með hana eða yfirvitundina; eða nánar til tekið, komist þeir
eitthvað áleiðis með æfingum sínum hafi yfirvitundin komið við sögu.61
Þegar Þórbergur fylgir frásögninni af erfiðleikum sínum eftir með því
að nefna sérstaklega að menn hafi komið að máli við hann eftir útkomu
Íslensks aðals og hælt honum fyrir hve vel hann náði Jóni Andréssyni, þarf
því naumast að fara í grafgötur um hvora vitundina skáldið telur sig hafa
virkjað til að „finna“ hvernig Jón talaði.62
En Þórbergur tengir Jóns-frásögnina líka séníinu. Honum líkar miður
að Bjarni frá Hofteigi segir í ritdómi um Rökkuróperuna að höfundurinn
lýsi ekki bernsku sinni „með augum barnsins, heldur með skyggni full-
vaxins listamanns“; fyrir vikið sendir hann Bjarna tóninn – en minnir í
framhaldinu á að sjálfur hafi hann átt stutt samtal við Vilhelm Moberg og
eftir á hafi Moberg sagt „Þessi maður er séní“.63 Hugrenningatengslin hjá
Þórbergi milli persónulýsingar sem hann kveðst ná með því að tæma hug-
ann, ummæla í ritdómi (sem hann túlkar sýnilega svo að honum „opn[i]
st [ekki] æðar til barnsins í sjálfum sér“) og athugasemdarinnar um séníið,
valda því að á leita skrif sálfræðinga sem hann hefur lesið.64 Þórbergur
varð sér ekki eingöngu úti um höfuðrit Frederics W.H. Myers, sem fyrr
var nefnt, heldur sat hann jafnframt heilan vetur tíma hjá Guðmundi
Finnbogasyni sem las The Varieties of Religious Experience (Ýmsar tegundir
trúarreynslunnar) eftir William James með nemendum.65 Þó að viðhorf
James og Myers til sénísins væru ekki söm, gerðu þeir báðir ráð fyrir að
61 Sjá Swami Vivekananda, Raja Yoga, bls. 62.
62 Sjá Matthías Johannessen, Í kompaníi við allífið, bls. 158–159, tilvitnun bls. 158.
63 Sama rit, tilvitnun bls. 159; B[jarni] B[enediktsson], „Sálarhasi í stækkunargleri“,
Þjóðviljinn, 11. janúar, 1959, bls. 7.
64 Sjá Pétur Gunnarsson, „Þórbergur og skáldsagan“, Aldarför, Reykjavík: Bjartur,
1999, bls. 99–107, hér bls. 102.
65 Sjá Þórbergur Þórðarson, Meistarar og lærisveinar, bls, 81; Árbók Háskóla Íslands.
Háskólaárið 1917–18, bls. 23. Guðmundur Finnbogason hafði fyrr skrifað um bók
James í Skírni, sjá „William James. Ýmsar tegundir trúarreynslunnar“, Skírnir 1905,
bls. 310–331.
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR