Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 26
25
það væri næmara eða ætti greiðari leið að hinu ómeðvitaða en aðrir. Í bók
sinni um mismunandi trúarreynslu talar James um „snillinga í trúarefnum“
sem einkennast af „upphöfnu tilfinninganæmi“.66 Myers heldur því hins
vegar fram að gáfa sénísins sé „getan til að nota öfl sem liggja of djúpt til
að venjulegur maður geti haft vald á þeim“ og tengir slík öfl beinlínis því
sem hann kallar neðanmarkavitund (e. subliminal consciousness).67 Sú vit-
und er þrátt fyrir forskeytið „neðan“ í ýmsu sambærileg við yfirvitundina
í nútímajóga.68
Eftir Þórberg liggur ekki lýsing á heilu „kerfi“ sem hann þróaði í list-
sköpun sinni eins og eftir Stanislavskíj.69 Menn hafa heldur ekki gert ráð
fyrir að íslenska skáldið hafi haft hugann við hvorttveggja í senn samtíma-
sálfræði og austræn fræði þegar hann vann að persónulýsingum sínum.
En frásögnin af vandræðunum við að lýsa Jóni Andréssyni og það sem í
kjölfar hennar kemur bendir meðal annars til að svo hafi verið. Og í þeim
efnum svipar Íslendingnum og Rússanum saman því að Stanislavskíj sam-
þætti jógaæfingar samtímasálfræði. Hann sótti meðal annars til franska
sálfræðingsins Théodules-Armands Ribot hugmyndina um geðhrifaminni
(e. affective memory), en kallaði það seinna tilfinningaminni (e. emotional
66 Sjá William James, The Varieties of Religious Experience. A Study in Human Nature
[Gifford fyrirlestrar fluttir í Edinborg 1901–1902], New York: Longmans, Green,
and Co., 1917, bls. 9–10.
67 Frederic W.H. Myers, Human Personality and its Survival of Bodily Death, 1. bindi,
bls. xxix. Myers var strax á sinni tíð afar umdeildur en hann átti ekki lítinn þátt í
að hið ómeðvitaða varð rannsóknarefni í sálfræði og beindi þá sjónum að lífi eftir
dauðann, spíritisma, dáleiðslu, ósjálfráðri skrift og fleiru i þeim dúr. Það kemur
því ekki á óvart að Einari H. Kvaran varð tíðrætt um hann í íslenskum blöðum og
tímaritum við upphaf síðustu aldar, sjá t.d. Einar Hjörleifsson, „Trú og sannanir“,
Skírnir 1905, bls. 293–309, hér bls. 309; „Á víð og dreif“ [ómerkt grein eftir rit-
stjóra], Fjallkonan, 20. október 1905, bls. 1.
68 Myers greinir á milli neðanmarkavitundar og ofanmarkavitundar (e. supraliminal
consciousness) en hið síðarnefnda er hversdagsvitund manna sem spannar að viti
hans bara lítið brot af heildarvitundinni. William James gagnrýnir orðaval vinar
síns Myers enda þótt hann dáist að tilraun hans til að gera vísindaleg skil ýmsum
fyrirbærum sem margir töldu – og telja enn – ekki á sviði vísindanna. Sjá William
James, „Frederic Myers’s Services to Psychology“, Essays in Psychical Research, Cam-
bridge Massachusetts og London: Harvard University Press, 1986, bls. 192–202,
hér bls. 196.
69 Stanislavskíj fylgdi sjálfur aðeins tveimur ritum eftir til útgáfu, þ.e. Lífi í listum og
Leikari æfir. Önnur verk eftir hann eins og Að smíða persónu og Að skapa hlutverk
eru endurgerðir, byggðar á uppköstum og athugasemdum, sjá Jean Benedetti,
Stanislavski. An Introduction, New York: Routledge, 2004, bls. ix.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“