Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 27
26
memory).70 Þess konar minni féll vel að skilningi rússneska leikstjórans á
hvernig mætti tengja sköpunarástand hinu yfirvitaða en Ribot taldi að í
taugakerfi mannsins væru menjar allrar fyrri reynslu hans þó að ekki væri
alltaf auðvelt að hafa upp á þeim í huganum. Lykt, snerting og hljómur
gætu hins vegar vakið þær upp þannig að menn gætu endurskapað liðna
atburði og lifað gamlar tilfinningar.71
Og úr því minni eða minningar eru ítrekað nefnd er vert að geta þess að
Sigurður Nordal las á sínum tíma Vivekananda og staldraði við skrif hans
um að menn kæmust best í íhugunarástand með því að senda veröldinni
góðar hugsanir og endurtaka þær hvað eftir annað, þ.e.: „„Let all beings
be happy; let all beings be peaceful; let all beings be blessed“ (heill sé með
öllum verum, friður með öllum verum, blessun með öllum verum).“72 Þessi
orð minntu Nordal á orð Glúms Þorgeirssonar í Landnámu, „Gott ey göml-
um mönnum, gott ey ungum mönnum“ og fyrir vikið samdi hann greinina
„Íslenzk yoga“ þar sem hann spyr hvort ekki sé til „vísir að ís lenzkri yoga,
sem ætti sinn þátt í því, að fólk væri hér alment athugulla og greindara en
títt er um alþýðu manna?“73 Nordal finnur sem vænta mátti ófá dæmi um
það enda vakir fyrir honum að sýna að óþarfi sé að sækja allt til útlanda.
Hann leitar sjálfur til Ólafs Davíðssonar og stillir t.d. lotulengdarkappi upp
sem hliðstæðu öndunaræfinga jóga og gátum sem hliðstæðu einbeitingar-
æfinganna. En hann nefnir líka að „[v]ísna og sagnaskemmtun sveitabarna“
hafi verið prýðisþjálfun í minnistækni.74 Dæmin sem Nordal tekur, ein
70 Menn fjalla um og túlka þessa breytingu á ýmsan hátt en það skiptir litlu hér, sjá
t.d. Sergei Tcherkasski, Stanislavsky and Yoga, bls. 9–10; David Krasner, „Stani-
slavsky’s System, Sense-Emotion Memory and Physical Action. Active Analysis,
American interpretations of the Systems Legacy“, The Routledge Companion to
Stanislavsky, ritstj. R. Andrew White, New York: Routledge, 2014, bls. 195–212,
hér bls. 204–207.
71 Sjá t.d. Sergei Tcherkasski, Stanislavsky and Yoga, bls. 83; Jean Benedetti, Stanislavski,
bls. 46–47. Tekið skal fram að Ribot taldi einnig að minning um tiltekinn atburð
og tilfinningar sem honum tengdust gætu vakið upp minningar um sambærilegar
tilfinningar sem tengdust öðrum atburðum og það nýtti Stanislavskíj sér.
72 Sigurður Nordal, „Íslenzk yoga“, Iðunn 2/1925, bls. 113–122, hér bls. 113. Í þessu
samhengi er forvitnilegt að við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar voru samtök innan
guðspekihreyfingarinnar (The League for the Right Settlement of the War) sem
stóðu fyrir hópíhugun til að skapa andrúmsloft sem gæti leitt til friðar og sendu þá
meðal annars til allra manna „kærleikshugsanir og góðvilja“, sjá Joy Dixon, Divine
Feminine. Theosophy and Feminism in England, Baltimore: Johns Hopkins University
Press, 2001, kindle-bók: 2041/4353.
73 Sama rit, bls. 114.
74 Sama rit, bls. 120–121.
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR