Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 30
29
íhugunarefninu þegar hann lýsti persónum sínum. Um Stanislavskíj hefur
verið sagt: „Hjá jóganum er viðfang íhugunarinnar guð, hjá Stanislavskíj
er [það] hlutverkið“ – og svipuð orð mætti þá hafa um Þórberg.84
Í samtali við Matthías Johannessen gefur Þórbergur sjálfur þeirri hug-
mynd undir fótinn að hann verði eitt með persónum sínum; hann gerir
strákslega ráð fyrir að hans eigin einkenni hafi vikið svo hressilega fyrir
sérkennum séra Árna Þórarinssonar, þegar hann hermdi eftir honum,
að fólki hafi fundist hann vera orðinn hrumur. En hann bætir við einkar
ísmeygilegri athugasemd um undirbúning sinn að sköpun Lillu Heggu í
Sálminum um blómið:
Ég yngdist upp þegar ég skrifaði Sálminn um blómið […] því þá
varð ég að leika barn í fimm ár. Ef ég hefði haldið áfram önnur
fimm, þá hefði ég verið farinn að slefa og pissa á mig.85
Sjálfshól og sjálfsskop Þórbergs leikast hér listilega á um leið og hann
dregur dár að því að menn geri ekki greinarmun á hlutverki listamannsins
og persónu hans; ekki á veruleikanum almennt og veruleika listarinnar.
En skop hans er tvíbent eins og oftar; ýmsir þeirra sem sáu hann herma
eftir séra Árna væru tilbúnir að vitna um að hann hefði „orðið“ klerkur.86 Í
samtalinu við Matthías er Þórbergur kannski að hugsa á svipuðum nótum
og Stanislavskíj þegar Rússinn ræðir um „hið magíska ef“ sem forsendu
sköpunar leikara, þ.e. að þeir ímyndi sér að þeir séu ekki að fást við skáld-
skap heldur veruleika.87 Maður getur að minnsta kosti séð fyrir sér að
Þórbergur kími að þörf eftirhermunnar, ekki síður en áhorfenda, til að trúa
á hið ímyndaða eins og það væri sannleikur; að á hann sæki hvað hann
hugsaði þegar hann lagði grunninn að lýsingu séra Árna og spurði máski
sjálfan sig: „Ef ég væri séra Árni …?“ En vísast hefur hann þá smáglott og
bætt við: „Og það varð ég auðvitað, af því ég er svo næmur.“
Enda þótt aðeins fá atriði hafi verið rakin sem snúa að listsköp-
un Þórbergs og Stanislavskíjs, kallar rakningin á spurninguna: Hver er
84 Sjá R. Andrew White, „Stanislavsky and Ramacharaka“, bls. 87.
85 Sjá Matthías Johannessen, Í kompaníi við allífið, bls. 237–238.
86 Hér vísa ég öðru fremur í eigin reynslu. Þórbergur kom í heimsókn í Menntaskól-
ann í Reykjavík á mínum námsárum þar og lék séra Árna og um þann viðburð hef
ég átt samræður við félaga mína. Sjá þó einnig Árni Hallgrímsson, „Sundurlaust
rabb um Þórberg Þórðarson“, bls. 32.
87 Um hið „magíska ef“ Stanislavskíjs, sjá t.d. Jean Benedetti, Stanislavski, bls. 47–50;
Sharon Marie Carnicke, Stanislavsky in Focus, hér einkum bls. 221.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“