Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 35
34
um og búddisma, fjölgaði líkömunum – eða „slíðrunum“ eins og það er
orðað – upp í sjö og sá er fjöldi þeirra í höfuðverki Blavatskíj, The Secret
Doctrine, sem út kom 1888.100 Blavatskíj vitnar í bók sinni jafnt í austræna
speki sem vestræn vísindi sinnar tíðar; einn kaflinn ber t.d. heitið „Akasa
og ljósvakinn“ enda er ljósvakinn orðinn lykilatriði í kenningum hennar.
En þrátt fyrir austrænu tilvísanirnar eru hugmyndir Blavatskíj um ljós-
líkama þó taldar hafa skýrt vestrænt yfirbragð.101 Og sama er um það að
segja þegar Annie Besant og félagi hennar, sjáandinn Charles Leadbeater,
spunnu kenningarnar um ljóslíkama enn þéttar að ljósvaka-eðlisfræði nítj-
ándu aldar, meðal annars í rannsóknarverkefni sem þau kölluðu „dulefna-
fræði“ (e. occult chemistry) og snerist um efnagreiningu er byggði á aðferð-
um sjáandans.102
En það er ástæðulaust að gera öllum ljóslíkömum í guðspeki skil hér
eða rekja þróunarsögu hugmyndarinnar um þá nákvæmlega. Fáein megin-
atriði duga til að greina frásögn Þórbergs. Hún ýtir reyndar undir að hug-
urinn leiti víðar en til guðspekinga, t.d. tekur hún eflaust mið af eftir-
dauða reynslusögum, meðal annars á spíritistafundum, sem ekki verður
reynt að elta uppi.
Hversdagslíkaminn – eða grófi líkaminn (e. gross body) eins og hann var
gjarna kallaður – og ljóslíkaminn, sem fylgihlutur hans, eru lægsta sviðið
í sjö slíðra líkani guðspekinga. Ljóslíkaminn er nefndur tvífari (e. double)
grófa líkamans af því að hann er sagður vera eftirmynd hans eða bera
svip af honum en hann er líka kallaður ljósvakalíkami (e. etheral / etheric
body) af því að uppistaða hans (e. substance) er ljósvaki eða bylgjuberi.103
Öfugt við líffræðilega líkamann er ljóslíkaminn hins vegar yfirleitt ósýni-
legur mennskum augum. Hvorttveggja, ósýnileikinn og tvífaraeinkennin,
er lykil atriði í frásögn Þórbergs, samanber að þeir sem skáldið reynir að ná
sambandi við, sjá hann ekki, auk þess sem hann þreifar á læri sér og kemst
100 Þetta rit Blavatskíj hefur verið nefnt ýmsum nöfnum á íslensku, þ.á m. Dulspekin,
Hin dulræna kenning og Hin dulda kenning. Um þróun kenninga guðspekinga um
ljóslíkamann, sjá t.d. Egil Asprem, „Pondering imponderables“. Olav Hammer
ræðir aftur á móti sérstaklega hvernig Leadbeater vinnur með austrænar hugmyndir
í skrifum um ljóslíkama, sbr. Claiming Knowledge. Strategies of Epistemology from
Theology to the New Age, Leiden og Boston: Brill, 2004, bls. 184–187.
101 Sjá Geoffrey Samuel og Jay Johnston, „General introduction“, bls. 2.
102 Sjá Egil Asprem, „Pondering imponderables“, bls. 153.
103 Charles Webster Leadbeater kallar ljóslíkamann t.d. „ljósvaka-tvífara“ (e. etheric
double), sbr. The Chakras, 2. útgáfa, Wheaton, illinois: Quest Books, 2013, bls. 6
(t.d.).
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR