Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 36
35
að raun um að það er enn á sínum stað, svo ekki sé talað um að hjarta hans
„slær“.104 En ljóslíkaminn er dálítið annars háttar en hinn líffræðilegi –
hann er „kvikari náttúru en líffræðileg skynjanleg umgjörð hans“ svo að
notað sé orðalag Meads.105 Það er því ekki kyndugt að Þórbergur lýsir
reynslu sinni svo að honum sé „óskemmtilega [!] létt um hlaup“ eftir að
búið er að myrða hann.106 Ljóslíkamanum, ekki grófa líkamanum, eru
bundnar hugsanir, tilfinningar og ástríður og mikið lagt upp úr því að
„ekkert breytist“ þegar menn deyi; þeir séu hins vegar búnir að reiða út
sína sæng í jarðlífinu: Hafi þeir til að mynda ekki komist yfir fíknir sínar
þar – Leadbeater talar meðal annars um áfengi og tóbak – þjáist þeir af því
að þeir geti ekki fullnægt þeim.107 „Nú blossar upp í mér óstjórnleg löng-
un í neftóbak“, segir Þórbergur og bætir við: „Hún læsist um mig eins og
logandi bál. Mér sortnar fyrir augum.“108
Það er sennilega engin tilviljun að frásögn Þórbergs lýkur þar sem
hann situr skelfingu lostinn á öxlunum á lögregluþjóninum. Ef tekið er
mið af einni greina Annie Besant ætti vitund Þórbergs að sitja föst í „ljós-
vakaklæðum“ sínum í nokkrar klukkustundir en kynni á endanum að voka
yfir líki hans, ekki bara í einhvers konar móki (e. dully conscious) heldur líka
– „mállaus“.109 Reyndar gerir Besant ráð fyrir að ljóslíkaminn og hvers-
104 Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru, bls. 91.
105 George R.S. Mead, The Doctrine of the Subtle Body in the Western Tradition, bls. 4–5.
Á ensku segir: „of a more dynamic nature than his physycally sensible frame“.
106 Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru, bls. 93.
107 Sjá t.d. C.W. Leadbeater, The Inner Life, North Charleston: CreateSpace inde-
pendent Publishing Platform, 2016 [1922], hér einkum bls. 40–42 og 181–182.
108 Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru, bls. 93.
109 Sjá Annie Besant, The Ancient Wisdom, North Charleston: CreateSpace indepen-
dent Publishing Platform, 2010 [1911], bls. 36 og 68. Ganga mætti miklu lengra
í túlkun og sjá framhaldið fyrir sér öllu gróteskara ef tekið væri líka mið af bók
Éliphas Lévi, Dogme et rituel de la haute magie, sem kom út á frönsku 1856 en var
þýdd á ensku 1896. Hún hafði svo mikil áhrif á dulspeki að ekki er ólíklegt að hún
hafi að minnsta kosti verið umræðuefni á einhverjum fundum íslenskra guðspek-
inga. Af henni þiggur Blavatskíj upphaflega hugtakið „astralljós“ sem Lévi hafði
um hinn „magíska aflvaka“ (e. magical agent) er gegnsýrði náttúruna alla og hann
taldi að galdramenn og mesmeristar gætu nýtt sér og stjórnað með viljakrafti
sínum. Í hlutverk magíska aflvakans les Blavatskíj bylgjuberann (sjá Egil Asprem
„Pondering imponderables“, bls. 142). Lévi gerir ráð fyrir að syndarar sitji fastir
miklu lengur en aðrir í ljóslíkama sínum – sem hann kallar „astrallíkama“ – og líði
þar ófáar kvalir vegna lasta sinna, sem taki jafnvel á sig mynd skrímsla og ofsæki
þá. Verður þá neftóbaksfíkn Þórbergs – sem kallast á við skrif Leadbeaters – hálfu
fyndnari en ella. Sjá Eliphas Levi [Alphonse Louis Constant], Dogme et Rituel de
la Haute Magie, þýð. A.E. Waite, 1. bindi: The Doctrine of Transcendental Magic.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“