Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 39
38
frekari skilnings á hugmyndaheimi Þórbergs og sköpunarstarfi hans. Jay
Johnston, hefur t.d. leitt að því rök – með skírskotun til irigaray, Levinas,
Derridas, Bergsons og Deleuze, að kenningin um ljóslíkama feli í sér mikla
ögrun við vestrænu aðgreininguna hugvera ~ hlutvera (e. subject ~ object);
hún brúi bilið milli sjálfsverunnar og annarra; hugsamvera (e. intersubjecti-
vity) sé órofa þáttur sjálfsvitundarinnar og verði undirstaða bæði siðrænnar
og fagurfræðilegrar afstöðu manna.115 Þann þátt væri vert að kanna sér-
staklega og þar með nánar tengsl hugmynda Þórbergs um pólitík og um
manninn í víðara samhengi – þó að það rúmist ekki innan ramma þessarar
greinar.
Í Bréfi til Láru, segir Þórbergur ekki aðeins frá því þegar hann er myrt-
ur ár eftir ár heldur líka því að hann verður óléttur.116 Óléttu- eða barns-
fæðingarlíkingin hefur um aldir verið höfð um karlmenn og er þá skemmst
að minnast Aþenu sem sprettur fullsköpuð úr höfði Seifs. Í Grikklandi
hinu forna var líkingin upphaflega höfð til að gera grein fyrir faðerni og
þar með hver væri „höfundur“ hugmynda, listaverka og löggjafar en það
mun ekki hafa verið fyrr en á fjórðu öld að tekið var að nota hana til að
tjá og ræða mörkin milli kynjanna.117 Nú er hugmyndin um hinn þung-
aða karlmann sennilega þekktust úr kvikmynd Arnolds Schwarzenegger,
The Junior, en ýmsir hafa þó líka sinnt óléttulíkingunni annars staðar, t.d.
í leikriti Shakespeares, Measure for Measure (Líku líkt), en þar er hún höfð
um „hugarferli karlmanna“.118 Frá lokum nítjándu aldar og alveg fram-
undir 1930 voru fantasíur um þungun karlmanna vinsælar. Meðal hinna
helstu hefur verið talin frásögnin af óléttu einræðisherrans Mafarka – og
fæðingu sonar hans Gazourmah – í skáldsögu Marinettis, Ma farka le futur-
115 Sjá Jay Johnston, Angels of Desire. Esoteric Bodies, Aesthetics and Ethics, London og
New York: Routledge, 2008 og Jay Johnston „The „Theosophic Glance““. Um
hugsamveru hef ég fyrr fjallað í öðru samhengi, sjá t.d. „„að segja frá […] ævin-
týrum“. Um leynilögreglusöguna, lestur, hugarkenninguna og söguna „Ungfrú
Harrington og ég““, hug/raun. Nútímabókmenntir og hugræn fræði, Reykjavík:
Bókmennta-og listfræðastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2015, bls.
55–89, hér bls. 63.
116 Um óléttufrásögnina hafa þau Garðar Baldvinsson og Soffía Auður Birgisdóttir
bæði fjallað en greint og túlkað á annan hátt en hér er gert, sbr. Garðar Baldvinsson,
„Þegn, líkami, kyn“, Skírnir 2/2000, bls. 273–302 og Soffía Auður Birgisdóttir, Ég
skapa – þess vegna er ég, bls. 66–72.
117 Sjá David D. Leitao, The Pregnant Male as Myth and Metaphor in Classical Greek
Literature, Cambridge: Cambridge University Press, 2014 [2012], bls. 1.
118 Sjá Mary Thomas Crane, „Male Pregnancy and Cognitive Permeability in Measure
for Measure“, Shakespeare Quarterly 3/1998, bls. 269–292, hér bls. 276.
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR