Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 41
40
[…] ef voldugt ímyndunarafl eða sterkar andlegar hreyfingar standa
að baki næmleikanum, getur þessi dýrmæta gáfa orsakað veikleika,
líkamlega bilun eða „hysterí“.123
Þórbergur segist hafa verið „langt fyrir innan fermingu“ þegar hann varð
óléttur, kannski til að lauma því að lesendum að hann hafi verið bráð-
þroska.124 Þegar hann lýsir ótta sínum við þungunina, leitar með sjálfum
sér skýringa á fyrirbærinu og hugsar um hvernig hann eigi að bregðast við
því – einn kosturinn sem hann hugleiðir er að bera barnið út – vísar hann
jafnt til munnmælasagna, þjóðsagna og Lækningabókar Jónassens (1884)
sem manna er búa í grennd við hann. Hann nefnir til dæmis gamlan hómó-
pata sem sagður er fjölkunnugur og hann grunar um að hafa galdrað í sig
barnið og annan gamlan karl sem honum sjálfum stendur stuggur af en sá
hefur lent utangarðs af því að móðir hans ætlaði að bera út barn, að því er
Þórbergur heldur. En óléttufrásögnin og kaflinn sem hún er hluti af, sýnir
líka rétt eins og „Morð, morð“ hvernig Þórbergur á í sífelldum samræðum
við þá þekkingu sem hann hefur tileinkað sér; hvernig hann spinnur sjálfan
sig inn í hugmyndir sem hann hefur kynnst, t.d. úr guðspekinni, og gerir
sér leik að öllu saman. Glöggt dæmi um það er svofelldur kafli:
Mér fanst einhver annarleg skelfing vofa yfir mér, síðan ég fór að
hugsa um útburðinn.
Mér fanst jafnvel öll náttúran, fólkið og húsin vera orðin svo
einkennilega fjarskyld mér, rétt eins og ég væri að sogast út úr hinum
sýnilega heimi.
Þessar og þvílíkar hugrenningar settust einkum að mér í ein-
rúmi. Á nóttunni undu þær sig utan um mig eins og smugálar, læstu
sig í gegnum sál mína eins og grimmar ófreskjur. Ég stríddi á móti
þeim af öllu afli. En þeim jókst kyngi við hverja mótspyrnu, Margar
nætur kom mér ekki dúr á auga. Þegar mér rann í brjóst, dreymdi
mig dalla, fulla af blóði og kófsveitta yfirsetukonu, blóðuga upp til
axla. Oft keyrðu kvalir mínar svo úr hófi, að ég settist upp í rúminu,
reri lífróður og þuldi bænir mínar í belg og biðu. Ég kunni heila úlf-
aldabyrði af versum sálmum og bænum. Ég trúði að vísu ekki einu orði
úr þessu. […] Þegar bænirnar þraut, raulaði ég vísur, kvað rímur eða
rifjaði upp fyrir mér flóðtöfluna í síðasta almanaki.125
123 Sama rit, bls. 108.
124 Sama rit, bls. 109.
125 Sama rit, bls. 116 (leturbreyting mín).
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR