Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 47
46
heldur jafnvel á indlandi eða bara í henni Abysseníu… En slíkir þankar eru
sprottnir af orðum Þórbergs sjálfs. Í ljósi óléttusögunnar liggur t.d. beint
við að útleggja „ófærur“ í þessum texta sem erfiðleikana er fylgja því að
vera kona:
Í sumum lífum erum við karlmenn, í öðrum kvenmenn. Mér er
illa við endurholdgun, því maður getur ratað í margs konar ófærur,
þegar maður kemur hingað aftur.149
En fleira mælir með að Þórbergur skopist bæði að sjálfum sér fullorðnum
og guðspekinni í óléttufrásögninni; aðferðin minnir til að mynda á stóra
ævisögulega handritið. Þar segir Þórbergur ekki aðeins beinum orðum að
hann hafi efast um tilveru meistaranna eða mahatmanna (e. mahatmas),
þ.e. tíbetskra manna sem Blavatskíj sagði vera í nánum tengslum við hið
guðlega svið og miðluðu henni upplýsingum sem hún skyldi koma til vest-
rænna manna.150 Hann gerir líka í löngu máli grín að sambandi meistara
og lærisveina sem Annie Besant og Leadbeater þróuðu frekar og lögðu
áherslu á í sínum skrifum – og sparar þá ekki sjálfsskopið.151
En hvað er ég þá að segja: að óléttusagan snúist aðeins um guðspeki,
flestar hugmyndir frásagnarinnar séu frá henni runnar og Þórbergur eigi
bara í samtali við guðspekinga? Nei fjarri því. Guðspekin varð honum hins
vegar innblástur að fleiru en yfirleitt hefur verið gert ráð fyrir.
Orðið synkretismi, sem á rætur sínar að rekja til nítjándu aldar, hefur
verið haft um trúarbrögð sem talin eru blanda ólíkra trúarhugmynda. Í
nýlegri grein rekur norski trúarbragðafræðingurinn Siv Ellen Kraft ólíkan
skilning sem menn hafa lagt í orðið en skýrir líka hvernig hún kýs sjálf að
fara með það og tekur þá dæmi af guðspekinni. Meðal þess sem hún nefnir
er að í upphafi hafi guðspekin undir leiðsögn Blavatskíj verið „trúar-vís-
indaleg blanda“ og „meðvitað synkretísk“ en seinna hafi hún tekið breyt-
ingum og orðið and-synkretísk. Nú hafi textar Besant og Leadbeaters
sums staðar verið kanóníseraðir þannig að skrif Blavatskíj falli í skugg-
ann.152 Guðspekingar hafi framan af lagt áherslu á að þeir væru að vinna
149 Sjá Matthías Johannessen, Í kompaníi við allífið, bls. 34.
150 Um það efni, sjá t.d. Joy Dixon, Divine feminine, 143/4353; 307–309/4353;
349/4353; 389/4353.
151 Um meistara guðspekinga almennt, sjá t.d. K. Paul Johnson, Initiates of Theosophical
Masters, New York: Suny Press, 1995.
152 Siv Ellen Kraft, „„To Mix or Not to Mix“. Syncretism / Anti-Syncretism in the
History of Theosophy“, Numen 2/2002, bls. 142–177, hér bls. 142, 146, 150 og 168.
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR