Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Qupperneq 50
49
eðlis fræðingurinn Chris Clarke að gildin, sem harðast hríni á vestrænum
kapítalískum samfélögum nú, séu þau að æðstu gæði séu talin fullnæging
langana einangraðra einstaklinga og plánetan einber (botnlaus) uppspretta
slíkrar fullnægingar. Valdaformgerðirnar sem komi heim og saman við
þessi gildi sér hann í fjölþjóðafyrirtækjum er líta alfarið á manneskjur sem
neytendur og samfélagið sem tæki til að auka neyslu.161 Til Newtons rekur
hann hins vegar þá sögu sem sögð er til að tryggja gildin og valdamynstrið
– en víkur auðvitað að seinni tíma viðbótum við hana í eðlisfræði og sam-
eindalíffræði – og lýsir henni svo:
Samkvæmt þeirri sögu hafa menn engin raunveruleg tengsl sín á
milli eða við aðrar verur á plánetunni af því að þeir eru gerðir af
ótengdum atómum. Hlutverk þeirra er að vera vélrænir neytendur
af því að efnið sem þeir eru gerðir úr hefur ekkert grundvallar (e.
ultimate) frelsi. Merking og tilgangur eru hughreystandi blekkingar
sem eiga sér enga stoð í veruleikanum.162
Clarke rís öndverður gegn þessari sögu – rétt eins og Þórbergur gegn eldri
gerð hennar – sem hann bendir á að marki skólakerfi, heilbrigðisvísindi
og skipti manna við náttúruna þó að margir leggi ekki trúnað á hana – og
teflir þá saman skammtafræði, vitund og sjálfi í tilraun til að leggja grunn
að nýrri sögu.
161 Chris Clarke, „Quantum Mechanics, Consciousness & the Self“, Science, Conscious-
ness & Ultimate Reality, bls. 65–92, hér bls. 65–66.
162 Sama rit, bls. 66. Á ensku segir: „On this story, we have no true connections
with each other or with the other beings on the planet because we are made of
disconnected atoms. Our role is that of mechanistic consumers because the material
of which we are made has no ultimate freedom. Meaning and purpose are comfor-
ting illusions with no basis in reality.“ Deila má um hvort vert sé að gera Newton
ábyrgan fyrir þeirri upprunasögu vísindanna sem Clarke gerir skil. Öfugt við ýmsa
sporgöngumenn sína gerði Newton almætti kristinna ekki útlægt úr þeirri náttúru
sem hann kannaði svo ekki sé minnst á að hann varði drjúgum tíma í rannsóknir
á alkemíu til að finna vísindalega stoð þeirri hugmynd sinni að guð væri virkur
gerandi í efnisheiminum; hann gerði með öðrum orðum ráð fyrir sameinandi afli
í veröldinni, sjá t.d. Rivka Feldhay, „Religion“, The Cambridge History of Science, 3.
bindi: Early Modern Science, ritstj. Roy Porter, Katharine Park og Lorraine Daston,
New York: Cambridge University Press 2008 [2006], bls. 753 og R.G. Keesing,
„Essay Review. Newtons’ Alchemy“ [ritdómur um The Janus Faces of Genius eftir
Betty Jo Teeter Dobbs, 1992], Contemporary Physics 2/1995, bls. 117–119, hér bls.
118. Sjá einnig Betty Jo Teeter Dobbs, The Janus Faces of Genius. The Role of Alchemy
in Newton’s Thought, New York: Cambridge University Press 1992, t.d. bls. 5–7.
„Að PREDiKA DÝRAVERNDUN FYRiR SOLTNUM HÝENUM“