Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 51
50
Ég nefni þetta til að vekja aftur athygli á andófi Þórbergs gegn upp-
runasögu vísindanna, á afstöðu hans til mannsins í heiminum – og tengslum
hennar við pólitískar skoðanir hans – sem maður hefur svo oft heyrt menn
hafa í flimtingum og draga dár að. En afstaða hans byggist ekki bara á
alvarlegum vangaveltum og einlægum vilja til að skilja veröldina og mann-
inn, heldur á hún sér ýmsar hliðstæður í skrifum harðra raunvísindamanna
nú. Og það ætti að minnsta kosti að fá einhverja til að hugsa sig um tvisvar
áður en þeir hafa hana að engu með hlátrinum einum.
Ég hef reynt að styðja nokkrum rökum þá fullyrðingu mína í upphafi að
sé tekið mið af gnósis blasi sögur Þórbergs við í öðru ljósi en ella. Þegar ég
byrjaði á þessari grein ætlaði ég mér að taka mörg dæmi úr ýmsum ritum
hans, Indriða miðli, Ævisögu séra Árna Þórarinssonar, Suðursveitarbókunum
og fleiru og ræða ítarlega um fyrirbæri eins og vitund, sjálf, ímyndunarafl,
sannleika og fleira.163 En fljótlega kom í ljós að ég gæti ekki fjallað nema
um lítið eitt af því sem ég hafði ætlað mér, svo margt þurfti skýringa við af
því að það hafði lítt eða ekki verið nefnt í íslenskri bókmenntaumræðu.
Fyrir guðleysingja sem dregur ekki upprunasögu vísindanna í efa, hefur
það verið nokkur reynsla að sökkva sér ofan í texta um guðspeki og jóga. En
vinnan við greinina hefur líka vakið ýmsa alvarlega þanka, stríðni blandna:
Má vera að þeir sem hafa gagnrýnt Þórberg fyrir bernska trú á dulin öfl
náttúrunnar – og samfélag sósíalisma – hafi sjálfir verið helstil bernskir í
trú sinni á eitthvað annað? Hafa þeir valið sér „þægileg trúarbrögð“ – svo
að vísað sé til Vivekananda – jafnt í afstöðunni til uppruna manns og heims
sem samfélags?164
163 Einkar mikilvægt þykir mér að hugmyndir Þórbergs um ímyndunarafl, vitund og
sjálf séu bornar að hugmyndum ýmissa fræðimanna nú, t.d. svokallaðra externalista,
þ.e. manna sem líta svo á að þessi fyrirbæri séu ekki bundin líkama mannsins held-
ur nái út fyrir hann, sbr. t.d. sálfræðinginn John Teske, „Externalism, Relational
Selves, and Redemptive Relationships“, Zygon 1/2011, bls. 183–203.
164 Sjá Swâmi Vivekananda, Starfsrækt, bls. 111. Benedikt Hjartarsyni og Guðna Elís-
syni skulu þakkaðar samræður um ákveðna þætti þessarar greinar og ónefndum
ritrýnum gagnlegar ábendingar.
BERGLJÓT SOFFÍA KRiSTJÁNSDÓTTiR