Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 59
58
hann sé með gróðasjónarmið í huga þegar hann dregur inn dulspeki og
hið andlega. Harkaleg gagnrýni dagblaðanna á einmitt þessa andlegu þætti
bendir til þess að það sé ekki tilfellið.
Samkvæmt Zangenberg er skýringin á bannhelgi bókmennta sem leggja
áherslu á dulspeki og hið andlega sú að bókmenntafræðin, sem ritdómarar
og bókmenntafræðingar læra, jaðarsetur hið andlega.19 Þetta á ekki ein-
ungis við um Danmörku heldur er það almenn hneigð í evrópskri hug-
myndasögu. Eins og dulspekifræðingurinn Wouter J. Hanegraaff hefur
gert grein fyrir í bókinni Esotericism and the Academy. Rejected Knowledge
in Western Culture hefur háskólasamfélagið allt frá tímum ádeilugagnrýni
mótmælendatrúarinnar og upplýsingarinnar skilgreint dulspekihreyf-
inguna sem Hinn (e. The Other).20 Háskólasamfélagið stóð fyrir afhelgaða
(þ. Entzauberung) sýn á veruleikann, byggða á fræðilegri sjálfsmynd sem
átti að vera rökleg andstæða dulspekilegra (og annarra) leiða til endur-
helgunar, sýn sem var viðhaldið með gagnrýninni kenningu (þ. kritische
Theorie) Frankfurtar-skólans.21 Það er í þessu samhengi sem skilja verður
þá „neikvæðu merkimiða“ sem Knud Wentzel talar um (og Hanegraaff
kallar „ruslakistuhugtökin „hleypidóma“, „hjátrú“, „fáránleika“ eða
„heimsku““).22 Hliðarávinningur af því að rannsaka viðtökur á Den stille
pige eftir Peter Høeg er m.ö.o. sá að þær sýna víðtækari hneigð til að jaðar-
setja dulspekilegar hugmyndir á hinum menntaða almannavettvangi.23
19 Benjamin Krasnik, „Da kritikken mistede ånden“, bls. 11.
20 „Með öðrum orðum; ef kirkjuna vantaði á upphafsárum sínum hugmynd um
„villutrú“ til að skilgreina eigin sjálfsmynd sem rétttrúnað, og mótmælendatrúin
þarfnaðist hugmyndarinnar um „heiðingja“ (gnóstíska eða annars konar) til að
skilgreina eigin sjálfsmynd sem sannkristna, þá skapaði nýtilkominn akademískur
rétttrúnaður hugmyndir um Hina (e. Others) sem hentuðu sjálfsskilgreiningar-
þörf þeirra betur: um órökrétta „hjátrú“ er byggði á fáfræði mannsins, trúgirni,
fordómum og hreinni heimsku í tilviki heimspekinga upplýsingartímabilsins,
„gullgerðarlist“ (e. alchemy) í tilviki nútímaefnafræðinga, „stjörnuspeki“ í tilviki
nútímastjörnufræðinga, „galdur“ og „dulfræðilega heimspeki“ (e. occult philosophy)
í tilviki vísindamanna almennt. Þannig kom flokkunin „dulfræði“ (e. the occult)
fram á þessum tíma sem ruslakistuhugtak fyrir þekkingu sem hefur verið hafnað og
hún hefur fram til dagsins í dag haldið virkni sinni sem róttækur „hinn“.“ Wouter
J. Hanegraaff, Esotericism and the Academy. Rejected Knowledge in Western Culture,
Cambridge: Cambridge University Press, 2012, bls. 221.
21 Sjá sama rit, bls. 312
22 Sama rit, bls. 312.
23 Hversu erfitt ferlið í átt að almennri viðurkenningu á vestrænni dulspeki sem
rannsóknarsviði hefur reynst, má sjá í bók Hanegraaffs. Í persónulegum kafla í
inngangi lýsir Hanegraaff því hvernig hann hafi í námi sínu rekist á nöfn á borð
GíSli MaGnúSSon