Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 65
64
Hanegraaff bendir á að þessi heildarsýn byggir ekki á kennisetningum
eða röklegum hugleiðingum, heldur persónulegri reynslu. Og það leiðir
jafnan til gagnrýni á svokallaðan exóterískan eða viðurkenndan átrúnað,
en þar er átt við stofnanavætt, trúfræðilegt og helgisiðabundið yfirborð
rótgróinna trúarbragða. Dulspekileg hlið trúarbragðanna snýr hins vegar
að vídd sammannlegrar eða altækrar reynslu, sem fellur undir dulhyggju-
hefð (e. mystical tradition) heimstrúarbragðanna. Rökrétt afleiðing þessarar
trúar á altæka þekkingu [d. universalisme] er sú að innan dulspekinnar (og
nýaldarhreyfingarinnar) ríkir gagnrýnin afstaða til kröfunnar um að ein
trúarbrögð útiloki önnur.36 Bertelsen og Høeg gefa sér sömu forsendur
og nýperenníalisminn: Báðir leggja áherslu á að til sé æðri þekking eða
gnósis er liggi undir yfirborði viðurkenndra helgisiða og goðsagna trúar-
bragðanna. Sama trú á altæka þekkingu leiðir um leið til gagnrýni á trú-
arofstæki og hugmyndina um að ein trúarbrögð útiloki önnur. 6) færsla/
innvígsla: Síðasta atriði Faivres tengist óbeint hugmyndinni um gnósis er
aðeins verði miðlað innan sannferðugrar hefðar, t.d. frá meistara til læri-
sveins. Þessi þráður tengir dulspekina dulhyggjunni, sem einnig virkar á
þann hátt að hún færist frá meistara til lærisveins.
Dulspekileg hugsanamynstur Faivres eru ekki stöðug heldur breytileg,
allir sex þættirnir eru m.ö.o. háðir sögulegu samhengi. Hanegraaff lýsir
þróuninni frá dulspeki endurreisnarinnar til nýaldarhreyfingarinnar sem
framvindu í átt að hinu veraldlega (e. the secular). Rómantíkin sprettur
af samþættingu hefðbundinnar dulspeki og hinnar nýju þróunarhyggju,
sem kom fram í andstöðu við upplýsinguna og leit á „tilverukeðjuna“37
frá sjónarhorni tímans. Rómantíska þróunarhyggjan (sem Blavatskij teng-
ir síðar við þróunarkenningu Darwins) getur af sér hugmynd um þróun
vitundarinnar, sem seinna er tekin upp af nýaldarhreyfingunni. Næstu
stóru hreyfinguna í kjölfar dulspekinnar kallar Hanegraaff okkúltisma eða
dulfræði. Dulfræði ber merki þess að þar mætast tilsvaranir dulspekinn-
ar og hið „nýja“ orsakasamhengi, þar er m.ö.o. um að ræða bræðing [d.
synkretisme] hefðbundinna dulspekilegra og vísindalegra hugmynda (dæmi
um þetta er túlkun Blavatskij á karmalögmálinu sem orsakasamhengi).
Spíritisminn er í þessum skilningi róttækt afbrigði dulfræðinnar. Eins og
36 Gagnrýni á perenníalisma nýaldarhreyfingarinnar vegna skorts á umburðarlyndi
gagnvart trúarlegum skorti á umburðarlyndi má finna hjá Wouter J. Hanegraaff,
New Age Religion and Western Culture, bls. 329–330.
37 Um tilverukeðjuna, sjá Arthur O. Lovejoy, The Great Chain of Being, Cambridge,
Massachusetts og London: Harvard University Press 2001 [1936].
GíSli MaGnúSSon