Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 70
69
Bláu dömuna má einnig túlka sem nútímavæðingu rétttrúnaðar. Eng-
inn vafi leikur á því að hún á að vera upplýstur kvenmeistari, staretsa,
innan ramma hinnar kristnu andlegu hefðar. Hún fylgir ekki rétttrúnaðar-
hugsjóninni um meinlæti, sem tengd er hegðun hefðbundinna dýrlinga.
Nútímadýrlingurinn er í tengslum bæði við líkama og anda, rúmar bæði
hið kynferðislega og hið andlega.
Peter Høeg hefur án vafa sótt innblásturinn að þessari nútímavæð-
ingu trúarbragðanna til Jes Bertelsen.49 Aðgreiningin milli (hnignandi)
menningarlegra hliða trúarbragðanna annars vegar og framsæknari and-
legrar tækni hins vegar er í samræmi við kenningar Bertelsens.50 Í við-
tökum skáldsögunnar hefur einnig verið nefnt að Rabíastofnunin minni
á Vaxtarmiðstöðina51 og erkibiskup [d. metropolit] sömu stofnunar, Móðir
María, þykir eiga ýmislegt sameiginlegt með Bertelsen. Á sama hátt og
49 Meistararitgerð Bertelsens, Kategori og afgørelse – Strukturer i Kierkegaards tænk-
ning, lýsir tilvistarlegri áherslu hans snemma á akademískum ferli hans, en frá
1974 fléttaði hann djúpsálarfræði og jóga saman við hið heimspekilega sjónarhorn.
Augljós áhrifin frá Jung eru sérlega áhugaverð í þessu samhengi. Í doktorsritgerð
sinni, Ouroboros – en undersøgelse af Selvets strukturer, leitaðist hann við að tengja
tilvistarstefnu Kierkegaards við jungíska djúpsálarfræði. Eftir að hafa varið doktors-
ritgerð sína fékk Bertelsen styrk til rannsókna við Jung-stofnunina. Í verki sínu
Dybdepsykologi (bindi i–iV) leitaðist Bertelsen við að tengja saman mismunandi
hefðir – algjörlega í samræmi við ný-perenníalismann. Hann reynir að sameina
sálfræði fæðingaráfallsins (Stanislav Grof, Otto Rank, C.G. Jung) og sálfræði
endurfæðingarinnar (sjamanisma, Tíbesku dauðabókina, Teresu frá Avila), vestræna
hugleiðslu (t.d. Rudolf Steiner) og austræna hugleiðslu (jóga, tantra, tao, zen). Frá
1978 og fram á níunda áratuginn var Bertelsen í samstarfi við írska heilarann Bob
Moore, sem þá var búsettur i Danmörku. Afrakstur þeirrar samvinnu var bókin
Drømme, chakrasymboler og meditation (1982).
50 Frá og með áttunda áratug síðustu aldar hafði Bertelsen aðhyllst hugmyndina
um að mögulegt væri að greina á milli exóterískra eða viðurkenndra trúarbragða
(kirkjulegrar trúar) og esóterískrar klausturdulhyggju: „Ég hef alltaf verið þeirrar
skoðunar að trúarbrögð eigi sér tvær hliðar: eitthvað sem mætti kalla kirkjulegan
átrúnað, þar sem maður nær tengingu við helgisiði, texta, kennisetningar og trúar-
kerfi. Og á hinn bóginn klausturdulhyggja. Og þar, í klausturdulhyggjunni, sá ég
aftur tvær hliðar: eina sem er menningarlega skilgreind – til dæmis hvað varðar að
vísa til Guðs eða Djöfulsins eða nauðsyn þess að vera karlkyns til að komast á braut
uppljómunar; og aðra hlið sem var altæk. Og allt frá upphafi hafði ég áhuga á hinu
altæka. Persónulega hafði ég nær engan áhuga á kirkjulegum átrúnaði trúarkerfa.“
Jes Bertelsen, Essence of Mind – A New Approach to Dzogchen, Berkeley: North Atlan-
tic Books, 2013 [útgáfa: ePub], bls. 202 og áfram. Áhersla Bertelsens var þannig á
reynslusvið (gnósis) fremur en á kerfisbundinn átrúnað.
51 Í Vaxtarmiðstöðinni bauð Jes Bertelsen upp á námskeið í djúpsálarfræði, drauma-
ráðningum og hugleiðslu.
BANNHELGi HiNS ANDLEGA?