Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 82
81
Sólveig Guðmundsdóttir
Ósiðlegir gjörningar
og róttækar launhelgar
Um klám, sataníska tilbeiðslu og lífhyggju
í Abreaktionsspiel Hermanns Nitsch
Á sjötta áratugnum starfaði nýframúrstefnuhreyfing í Austurríki sem var
umtöluð fyrir byltingarkennda listgjörninga sína og þjóðfélagslegt andóf.
Hér er átt við aksjónismann í Vín (þ. Wiener Aktionismus), en listamenn-
irnir sem töldust til hópsins voru Hermann Nitsch, Günter Brus, Otto
Muehl og Rudolf Schwarzkogler.1 Aksjónistarnir tileinkuðu sér fjölbreytta
listframleiðslu á borð við aðgerða-málverk, klippimyndir og skúlptúra, en
þeir eru líklega þekktastir fyrir gjörninga sína eða „aðgerðir“ (þ. Aktionen).
Aðgerðirnar, sem hreyfingin dregur nafn sitt af, eru alræmdar fyrir ögrandi
innihald og markarof, sem kemur m.a. fram með skýrum hætti í aðgerð
Nitsch, Abreaktionsspiel (Geðlausnarleikur), sem hér verður greind. Nitsch
lýsir verkinu sjálfur sem einni af „öflugustu og hamslausustu“ aðgerðum
sínum,2 en í þessari grein verða birtingarmyndir kláms og dulspeki innan
gjörningsins teknar til athugunar. Markmiðið er að greina samspil þess-
ara ólíku orðræðna kláms og dulspeki og hvernig það kemur fyrir sjónir í
Abreaktionsspiel. Með því að gaumgæfa þessar tvær orðræður og margbrot-
in tengsl þeirra opnast ný túlkunarleið á verkið, sem gefur um leið aðra
sýn á klámfengni og róttækni aðgerðarinnar. Tengsl kláms og listar hafa
1 Tímabilið sem er venjulega tengt aksjónismanum spannar árin 1961–1972 en höf-
undar ferill stakra listamanna var að sjálfsögðu lengri. Auk listamannanna fjögurra
sem mynda kjarna hópsins má nefna samstarfsmenn og -konur á borð við VALiE
EXPORT, Peter Weibel, Adolf Frohner, Kurt Kren, Oswald Wiener og aðra
meðlimi Vínar-hópsins (þ. Die Wiener Gruppe), að ónefndum fjölda þátttakenda
í aðgerðum þeirra (þ.á m. Ana Brus, Hanel Koeck, Franz Kaltenbäck og Hans
Cibulka).
2 Hermann Nitsch, Das Orgien Mysterien Theater. Die Partituren aller aufgeführten
Aktionen 1960–1979, Napólí og Vín: studio morra, 1979, bls. 248.
Ritið 1/2017, bls. 81–112