Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 84
83
og almennings. Aksjónistarnir voru bendlaðir við fasisma, list þeirra var
úthrópuð sem „úrkynjuð“ af fjölmiðlum og andstæðingum og þannig gripið
til hugtaks sem nasisminn hafði beitt gagnvart sögulegu framúrstefnunni
og öðrum straumum módernismans.6 Aðgerðum aksjónista fylgdu jafnan
hneyksli og þeir voru sakaðir um klámframleiðslu, sataníska tilbeiðslu og
almenna siðspillingu. Í mörgum tilvikum voru þeir kærðir og dæmdir fyrir
listviðburði sína og á endanum kusu margir þeirra að flýja í sjálfskipaða
útlegð til Þýskalands. Afturhald austurrísks samfélags og skortur á upp-
gjöri er ein af ástæðum þess að þar skapaðist svo róttæk list með áherslu á
ögrun og hefðarrof. Gjörningar aksjónistanna voru ákall eftir frjálsu kyn-
ferði, óháðri og óþvingaðri menningu og umbyltingu þjóðfélagsins og slíkt
andóf er auðsjáanlegt í Abreaktionsspiel. Tilgangurinn með verkum þeirra
var m.a. að lækna samfélagsleg mein og heila fársjúkt þjóðfélag með ein-
stæðri upplifun á gjörningum, sem átti að orsaka geðlausn (þ. Abreaktion),
geðhreinsun (gr. kaþarsis) og umbreytingu vitundarinnar.7
Í fyrsta hluta greinarinnar verður sett fram lýsing á Abreaktionsspiel
með það í huga að gefa lesandanum tilfinningu fyrir verkinu og draga
fram í hverju klámfengni þess var fólgin. Því næst kemur stutt yfirferð
um samband kláms og listar, áður en athygli er beint að tengslum kláms
við aksjónismann með hliðsjón af viðhorfum Nitsch og Muehls til kláms.
Þaðan verður sjónum vikið að dulspekinni og hlutverki kynlífs innan
dulrænna hefða. Þó klámið sé sett í forgrunn er einnig nauðsynlegt að
gera grein fyrir stöðu og virkni kynlífs í orðræðu dulspekinnar almennt,
enda má hér finna þýðingarmikinn vísi að skörun kláms og dulspeki í
starfsemi aksjónismans. Í kjölfarið kemur greining á Abreaktionsspiel, þar
sem horft er til satanisma og kynlífsgaldurs, ástundunar þar sem kynlíf,
klám og dulspeki mætast. Að lokum er fjallað stuttlega um þá lífhyggju
sem kemur fyrir í verkinu og hugað að úrvinnslu aksjónistanna á kenn-
ingum Wilhelms Reich. Þá verður dæmi tekið úr skrifum Muehls, þar sem
áhrifin koma fram með einna skýrustum hætti. Þetta innskot undirstrikar
jafnframt þá sérstæðu blöndu kláms, dulspeki og andófs sem birtist víða í
aksjónismanum.
6 Cecilia Novero, „Painful Painting and Brutal Ecstasy. The Material Actions of
Günter Brus and Otto Muehl“, seminar 4/2007, bls. 453–468, hér bls. 466.
7 Margar hugmyndir og hugtök aksjónistanna, þ.á m. geðlausn og geðhreinsun, eru
fengin úr sálgreiningu.
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR