Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Qupperneq 92
91
listar sinnar og kláms, en hún er æði óljós og virðist miðast við að list hans
standi nær hinu náttúrulega og raunsanna. Samkvæmt honum felst hið
ólistræna við klámið í skorti á sannfæringu, samfara vöntun á því sem hann
álítur „eðlilegan hlut“ (þ. selbstverständlichkeit) eða því sem telst vera nátt-
úrulegt.29 Fullyrðingar hans má setja í samhengi við hugmyndir aksjón-
ismans um raunveruleikann og milliliðalausa upplifun hans í aðgerðum.
Nitsch bætir við:
að draga svonefnd mörk á milli listar og kláms, virðist mér sömuleiðis
vera fáránlegt verkefni. annað hvort varðar það góða list, sem felur í sér
lýsingu á hinu kynferðislega, eða um er að ræða slæma list með erótísku
inntaki, eða það varðar afurðir, þar sem hið algjörlega erótíska er sýnt –
af hverju ekki? klám, það er vandamál ríkisins, sem takmarkar kynferði
okkar.30
Nitsch tekur þannig á vissan hátt í sama streng og margir síðari tíma fræði-
menn þegar kemur að aðgreiningu listar og kláms. Ummælin um slæma
list eru að auki eftirtektarverð í samhengi umræðunnar um aksjónismann,
sem almenningur og fjölmiðlar úthrópuðu gjarnan sem slæma og úrkynj-
aða list. Hann skilgreinir erótík í list sem lélega listsköpun og býr þar með
til stigveldi innan listarinnar. Um leið gerir hann lítið úr þörfinni fyrir að
draga skýr mörk á milli listar og kláms, sem gefur til kynna að hann telji
að klám liggi að öllu fyrir utan listina. Hér er vert að undirstrika að Nitsch
telur klám vera vandamál ríkisins, sprottið af þeim takmörkunum kynferð-
isins sem forræðishyggja þess gerist sek um, sem opinberist í bannhelgi
og óheilbrigðri bælingu kynverundarinnar. Andspyrna aksjónismans í Vín
beinist einmitt gegn slíkri bælingu og höftum ríkisins.
Jákvæðara viðhorf í garð kláms má finna hjá Otto Muehl, en í mater-
ialaktion (1968) segir hann klám vera „hentugan miðil til að lækna samfé-
lagið af ofsahræðslu við kynfærausla“.31 Klámið „hrekur burt hömlulausar
nornaveiðar og skírlífissturlun í milljörðum dvergsheila“ og hvern þann
29 Aksjónistarnir skrifa nafnorðin á þýsku með litlum staf og því er haldið hér, þar
sem það er merkingarbær hluti af þeirri málgagnrýni sem kom fram eftir seinni
heimsstyrjöld. Meðlimir Vínar-hópsins og skáldkonan Elfriede Jelinek tileinkuðu
sér einnig slíka stafsetningu.
30 Hermann Nitsch, „Vortrag an der Hochschule für Film und Fernsehen“, bls. 34.
31 Otto Muehl, „materialaktion“ [1968], Otto Muehl. Leben / Kunst / Werk. Aktion,
Utopie, Malerei 1960–2004, ritstj. Peter Noever, Köln: Walter König, 2004, bls.
59–60, hér bls. 60.
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR