Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 94
93
„fyrir menntamenn, þ.e. með pólitískri vitund“.38 Ummælin vísa til póli-
tískrar beitingar hans á klámi, sem tengist menningarlegu andófi. Í verkum
Muehls og Nitsch hefur klámið því víðar skírskotanir og þjónar tilgangi
sem andóf og birtingarmynd raunverulegs lífs. Því er ætlað að sýna mót-
spyrnu gegn afturhaldssemi austurríska ríkisins og þeirri andlausu menn-
ingarpólitík sem þar var stunduð. Klámið er þó ekki eingöngu hneyksl-
unartól, heldur er það samofið öðrum orðræðum samtímans og myndar
þannig fjölþættan merkingarvef. Að sama skapi er vert að íhuga það skil-
greiningarvald sem bæði Nitsch og Muehl taka sér hér út frá stöðu sinni
sem listamenn. Þrátt fyrir að boða markarof og endalok smáborgaralegrar
siðvendni þá leitast þeir við að aðgreina list sína frá klámi og eru jafnvel
tilbúnir að skapa virðingarraðir út frá aðgreiningu kláms og listar. Jafnvel
þótt þeir nýti sér klám sem ögrunartæki er list þeirra í báðum tilvikum
hafin á stall og henni gefinn æðri tilgangur, hvort sem um ræðir pólitískt
andóf eða raunsæja spegilmynd lífsins.
Dulúðugt klám
Hingað til hefur hlutverk klámsins í verkum aksjónismans ekki verið rann-
sakað í tengslum við þá dulspekilegu þræði sem finna má í verkum hreyf-
ingarinnar.39 Með því að rýna í orðræður kláms og dulspeki saman opnast
ný túlkunarvídd í verkunum. Abreaktionsspiel er lýsandi dæmi um hvernig
klám er samtvinnað helgisiðum og dulrænum táknmyndum, í verkinu má
greina viðsnúning á kaþólskum helgisiðum og um leið tilvísanir í dulspeki-
hefðir og -gjörninga á borð við satanisma og kynlífsgaldur. Framúrstefnan
hefur löngum sótt efnivið sinn í ólíkar orðræður og menningarstrauma og
ein af þeim er orðræða dulspekinnar. Dulspekin gegnir þá oft lykilhlut-
verki í þeirri nýju, tilraunakenndu fagurfræði sem þar er sköpuð og flétt-
38 Sama rit, bls. 148.
39 Áherslurnar hafa beinst að öðrum sviðum, til að mynda fagurfræði, sálgreiningu og
viðtökum. Listfræðingurinn Peter Gorsen fjallar um efnið út frá fagurfræði ljót-
leikans og hins ógeðfellda eða klámfengna (þ. obszön) og setur það í samhengi við
árásarhvötina út frá tvískiptu kerfi Freuds um lífs- og dauðahvötina. Peter Gorsen,
Das Prinzip Obszön. Kunst, Pornographie und Gesellschaft, Hamburg: Rowohlt, 1969;
Peter Gorsen, Sexualästhetik. Oliver Jahraus túlkar stöðu kláms innan aksjónismans
aftur á móti út frá miðlægni geðlausnarhugmyndarinnar innan fagurfræði þeirra og
hnykkir á viðtökum og viðbrögðum við gjörningunum, þ.e. líkamlegum áhrifum
slíkra gjörninga á áhorfendur. Oliver Jahraus, Die Aktion des Wiener Aktionismus.
Subversion der Kultur und Dispositionierung des Bewußtseins, München: Wilhelm
Fink, 2001, bls. 271–275.
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR