Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 100
99
sárs og blæðandi skapa, hvort sem um ræðir blóðið sem fylgir meydóms-
missi eða tíðablæðingar, en eins og komið hefur fram lítur Nitsch á blóð
og vatn úr síðusári sem samsvörun fyrir tíðablóð og blæðandi kvensköp.
Hliðstæðan á milli kynferðislegra og trúarlegra athafna vegur þungt á
metum við greiningu á Abreaktionsspiel, þar sem hið klámfengna í verkum
Nitsch er ávallt samtvinnað hinu trúarlega, til að mynda kaþólskum eða
dulspekilegum táknmyndum. Að sama skapi sýnir þetta hvernig ögrunin
gagnvart kaþólsku kirkjunni liggur til grundvallar aðgerðinni.
Hér er ekki á ferðinni tilviljunarkennd klámvæðing kaþólskra helgisiða,
heldur er að hluta til sótt í smiðju dulrænna hefða sem blönduðu kynferði
og helgisiðum saman. Viðlíka samblöndun kynferðis og kristinna tákn-
mynda er að finna í svörtum messum og vissum tegundum af kynlífsgaldri.
Samkvæmt Nitsch er svarta messan „mikilvæg sem undanfari“ aksjónism-
ans,61 en hún er jafnan tengd við satanisma, sem er oft skilgreindur sem
„heilagt eða heimspekilegt kenningakerfi sem lýsir eða opinberar hatur
á kristindómi“.62 Fræðimenn hafa aftur á móti skilgreint satanisma sem
„skipulagða dýrkun eða tilbeiðslu Satans“.63 Nútímasatanismi hefur þó
slitið Satan „úr guðfræðilegu og kristnu samhengi“ og segja má að hann sé
„knúinn áfram af margþættri bylgju rómantískra og módernískra hugðar-
efna“.64 Ástundunin er „satanísk að því leyti að allir hópar og einstaklingar
tengja við ímynd djöfulsins […] sem afl, fyrirmynd, tákn eða tjáningu á
sjálfinu“.65 Skipuleg iðkun á satanisma er nútímalegt fyrirbrigði, því lengi
vel var hann ekki til annars staðar en í hugarheimi fólks og hann var í
raun fyrst fundinn upp sem kerfisbundin tilbeiðsla á sjötta áratug tuttug-
ustu aldar með tilkomu Antons LaVey og Satanskirkjunnar.66 Þannig má
líta á satanisma sem menningarkima innan „vestræns félagslegs umhverfis
fyrir (sér)trúarreglur“ (e. cultic milieu) eða sviðs „dulmenningar“ (e. occult-
61 Hermann Nitsch, „Versuche zur Geschichte der Aktion“, bls. 54–56.
62 Massimo introvigne, „Satanism“, Dictionary of Gnosis and Western Esotericism, ritstj.
Wouter J. Hanegraaff, Leiden: Brill, 2006, bls. 1035–1037, hér bls. 1035.
63 Sama rit, bls. 1035.
64 Jesper Aagaard Petersen, „introduction. Embracing Satan“, Contemporary Religious
Satanism. A Critical Anthology, ritstj. Jesper Aagaard Petersen, Surrey: Ashgate,
2009, bls. 1–26, hér bls. 3.
65 Sama rit, bls. 2.
66 LaVey stofnaði Satanskirkjuna (Church of Satan) árið 1966. Hann trúði á kraft gald-
urs og helgisiða og leit fyrst og fremst á Satan sem myndlíkingu fyrir æðra sjálf
hvers manns. Helsti helgisiður kirkjunnar var svarta messan, sem gegndi hlutverki
geðleiks (e. psychodrama) fyrir meðlimi Satanskirkjunnar og opnaði þeim leið til að
sigrast á hömlum sínum.
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR