Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 110
109
í þágu andófs, í þessu tilviki gegn stofnanabundnum trúarbrögðum og
ríkjandi rökhyggju. Andstaða dulspekinnar beinist hér einkum gegn kaþ-
ólsku kirkjunni og birtist það m.a. í notkun Nitsch á táknmyndum og
siðum úr satanískri tilbeiðslu á borð við svarta messu, sem felur í sér van-
helgun á kristnum helgisiðum og helgigripum. Mótspyrnan snýr jafnframt
að opinberum raunveruleika ríkisins. Aksjónistarnir kölluðu eftir nýjum
veruleika, sem aðgerðum þeirra var ætlað gera mögulegan, en þær áttu
að hafa í för með sér geðlausn og geðhreinsun jafnt hjá þátttakendum og
áhorfendum. Hér sækja aksjónistar í hugtök úr orðræðu sálgreiningar, sem
er ein af meginstoðunum í fagurfræði þeirra. Sálgreiningin þjónar hér
hlutverki andófs gegn borgaralegu siðferði og ímynd hinnar röklegu hug-
veru. Að lokum er vert að nefna orðræðu lífhyggjunnar, sem hér er tengd
við ómælda kynferðislega orku og taumlaust kynsvall. Lífhyggjan blasir
við í seinni hluta Abreaktionsspiel, þar sem helgisiða-aðgerðin víkur fyrir
hömlulausum lífsþrótti og ringulreið. Andófshlutverk hennar beinist að
sama skapi gegn borgaralegu siðgæði og rökhyggju, þar sem hið ótamda,
kynferðislega afl á að vísa veginn til nýrrar tilvistar. Með því að rannsaka
þessar orðræður má fletta ofan af hinum ólíku merkingarlögum í fjölþættu
verkefni aksjónismans og brjóta andóf þeirra og fagurfræðilega nýsköpun
til mergjar.
Í Abreaktionsspiel rennur hið klámfengna og dulræna saman. Nitsch
leitast ekki eingöngu við að sýna fram á innbyggð tengsl hins kynferð-
islega og hins trúarlega, heldur gegnir hvort tveggja veigamiklu hlutverki
í andófi hans gegn kaþólsku kirkjunni. Þetta verður sýnilegt þegar þræð-
irnir á milli kláms, dulspeki og kaþólskra helgisiða í verkinu eru raktir.
Aksjónisminn fer inn á menningarleg bannsvæði með tilliti til kynferðis og
trúarbragða og tengslanna þar á milli, líkt og blasir við í Abreaktionsspiel.
Sannarlega er hér um að ræða ögrun gagnvart ríkjandi gildum og hefðum,
en hún er annað og meira en innantóm sjónfróun eða óígrundað smekk-
leysi. Með því að fara í saumana á orðræðum kláms og dulspeki opnast upp
ný merkingarvídd sem sýnir margbrotið og gagnvirkt samband þessara
orðræðna og varpar nýju ljósi á klámfengni verksins. Orðræða lífhyggj-
unnar er sömuleiðis nátengd dulspeki og klámi í merkingarheimi verksins.
Loks tengist hún sálgreiningunni sterkum böndum eins og sjá má af vinnu
aksjónistanna með geðlausn og geðhreinsun, en þessar orðræður mætast
einnig í kenningum Wilhelms Reich. Þessir þræðir fléttast saman á flókinn
hátt í fagurfræði aksjónismans. Einn helsti snertipunkturinn er andófið, en
ÓSiðLEGiR GJÖRNiNGAR OG RÓTTÆKAR LAUNHELGAR