Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 117
116
Nýall. Nokkur íslenzk drög til heimsfræði og líffræði.15 Leitast verður við að
staðsetja verkið með tilliti til vísindalegrar og trúarlegrar orðræðu á tíma-
bilinu og sjónum beint sérstaklega að tilkalli Nýals til vísindalegs þekk-
ingargildis og gagnrýni verksins á þröngsýna vísindahyggju og andlega
strauma samtímans. Kannað verður hvernig nýalsspekin, sem kenna má
við strangvísindalega dulspeki, tengist sýn Helga á nýja þekkingu er muni
binda endi á hvers kyns dulrænu um leið og hún feli í sér útvíkkun vís-
indanna. Dulspeki Helga kallar fram áleitnar spurningar um samband vís-
indahyggju, andlegra strauma og skáldlegra þráða í dulspeki nútímans. Til
að leita svara við þeim spurningum og varpa ljósi á orðræðuna sem brýst
fram í skrifum Helga er nauðsynlegt að „sökkva sér ofan í oft undarlega og
framandi heimsmynd horfinnar vísindamenningar“, svo gripið sé til orða
Egils Asprem,16 og beina sjónum í senn að ritum á sviði trúarlegra dul-
spekihefða og nútímavísinda – en þó ekki síst að margbrotnum tengslum
þessara tveggja sviða, sem fræðimenn leggja gjarnan þunga áherslu á að
halda aðgreindum.
Eftirfarandi greining á mælskulist Helga er ekki mælskufræðileg grein-
ing í hefðbundnum skilningi, þar sem nákvæm athugun á málbeitingu, stíl
og framsetningu væri í forgrunni. Vissulega er vikið að slíkum þáttum, en
áherslan er öllu heldur á þá sérstæðu skáldskaparfræði þekkingar sem greina
má í skrifum Helga. Hugtakið mælskulist er notað sem einskonar samheiti
þess sem hér er nefnt skáldskaparfræði þekkingar og er hugtakinu því beitt
á nokkuð annan hátt en lesendur eiga að venjast. Grunnurinn að þessum
skilningi liggur í þeirri aðferðafræði sögulegrar orðræðugreiningar sem
stuðst er við.17 Ólíkt hugtakinu orðræða, sem lýsir undirliggjandi reglukerfi
15 Nýalsbækurnar urðu alls sex talsins, þær fimm sem fylgdu á eftir Nýal eru: Ennýall.
Nokkur íslensk drög til skilnings á heimi og lífi, Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan, 1929;
Framnýall. Björgun mannkynsins og aðrir aldaskiftaþættir, Reykjavík: Bókaútgáfa
Guðjóns Ó Guðjónssonar, 1941; Viðnýall. Afmælisrit, Reykjavík: Bókaútgáfa Guð-
jóns Ó Guðjónssonar, 1942; Sannýall. Saga Frímanns eftir að hann fluttist á aðra jörð
og aðrir Nýalsþættir, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó Guðjónssonar, 1943; Þónýall.
Íslensk vísindi og framtíð mannkynsins og aðrir Nýalsþættir, Reykjavík: Bókaútgáfa
Guðjóns Ó Guðjónssonar, 1947.
16 Egil Asprem, „Pondering imponderables. Occultism in the Mirror of Late Classical
Physics“, Ariès 2/2011: 129–165, hér bls. 133.
17 Um sögulega orðræðugreiningu, sjá Achim Landwehr, Historische Diskursanalyse,
Frankfurt am Main og New York: Campus, 2008. Um forsendur og aðferðafræði
slíkrar greiningar og gildi hennar fyrir rannsóknir á dulspeki hef ég fjallað á
öðrum vettvangi, sjá „Svipmyndir að handan. Um miðla, fagurfræði og launhelgar
nútímans“, Ritið 2/2013, bls. 41–81. Sjá einnig grein Sólveigar Guðmundsdóttur,
BenediKt HjaRtaRSon