Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 119
118
vídd [texta] sem ekki gera tilkall til að teljast fagurfræðilegir“.20 Þetta er
meginástæða þess að í framhaldinu er ekki horft sérstaklega til beitingar
skáldlegra tjáningaraðferða í Nýal eða til samræðu ritsins við verk á sviði
fagurbókmennta. Áherslan er hér öllu heldur á þá skáldskaparfræði sem er
innbyggð í sjálfa orðræðu þeirrar nútímadulspeki sem mótast á mörkum
raunvísindakenninga og dulrænna trúarhugmynda um aldamótin 1900.
Markmiðið er að draga fram hvernig myndmál, orðanotkun og hugsana-
ferli sem við hneigjumst til að eigna skáldlegri tjáningu spretta í raun af
sérstæðri skáldskaparfræði þekkingar sem á upptök sín í vísindalegri og
trúarlegri orðræðu.
Ástæða þess að meginþunginn er á sambandi vísinda og trúar er sú að
nútímadulspeki mótast sem sérstætt afbrigði „íhugandi eða spekúlatífrar
þekkingar“21 í þeirri margbrotnu togstreitu á milli vísinda og trúar sem
setur mark sitt á menningu nútímans. Nýalsspekin er lýsandi afurð þessa
ferlis og greiningunni á mælskulist hennar er ætlað að varpa ljósi á þann
sérstæða bræðing vísindalegra kenninga og trúarhugmynda sem birtist
í skrifum Helga, hvernig hann „mylur […] alla heimsins speki mjölinu
smærra og steypir upp úr því sína speki“ eins og Magnús Jónsson komst
að orði í ritdómi um fyrstu bindi Nýals.22 Í þessu felst ögrun nýalsspekinn-
ar – og e.t.v. að einhverju leyti ögrun þeirrar umfjöllunar sem hér fylgir.
Heimsmyndafræði Helga Pjeturss og þekkingarsögulegt sam hengi hennar
kallar á yfirgripsmikinn en um leið óreiðukenndan lestur og greiningin sem
hér fylgir er á einhvern hátt tilhlaup að slíkri túlkun, þar sem horft er í senn
til guðspeki, spíritisma, sálarrannsókna, gnóstíkur, nýplatonisma, náttúru-
speki, lífheimspeki, sáleðlisfræði, heimsmyndafræði, eðlisfræðikenn inga
um ljósvakann, og líffræðilegra þróunarhugmynda sem rekja má til ein-
hyggju og ný-lamarckisma.
20 Catherine Gallagher og Stephen Greenblatt, Practicing New Historicism, Chicago
og London: University of Chicago Press, 2000, 10. Vísunin í skáldlega tækni
skírskotar til þekktrar greinar Viktors Shklovskij frá 1917: „Listin sem tækni“,
þýð. Árni Bergmann, Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault,
ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík:
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991, bls. 21–42. Þótt sjónum sé hér
ekki beint sérstaklega að beitingu skáldlegra tjáningaraðferða og samræðu Nýals
við verk á sviði fagurbókmennta er ekki þar með sagt að slíkir þættir séu ekki til
staðar í verkinu, greining á þeim liggur einfaldlega utan ramma þessarar greinar.
21 Andreas B. Kilcher, „Sjö þekkingarfræðilegar tilgátur um dulspeki“, bls. 183.
22 Magnús Jónsson, „Ritsjá“, bls. 252.
BenediKt HjaRtaRSon