Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 120
119
Hin nýju vísindi:
Um víxlmagnan, lífstarfsíleiðingu, heilaöldur, taugageislun o.fl.
Skrif jarðfræðingsins og dulspekingsins Helga Pjeturss skipa um margt
sérstæðan sess í íslenskri menningarsögu. Þannig hefur Pétur Pétursson
lýst Helga sem „kynlegum kvisti í heimi vísinda og trúar“ er „falli illa undir
hefðbundnar fræðilegar skilgreiningar og flokkunarkerfi“.23 Lýsingin vísar
fyrst og fremst til síðari hluta höfundarverksins, enda virðist nokkuð vand-
kvæðalaust að fella fyrri skrif Helga um jarðfræði og önnur svið náttúru-
vísinda undir hefðbundna vísindaiðkun.24 Augljós hvörf verða aftur á móti
á öðrum og þriðja áratugnum, þegar Helgi tekur að setja fram „nýstárlegar
kenningar [sínar] um stjörnulíffræði“ og „lífgeisla“.25 Að mati Péturs voru
þessar hugmyndir „skilgetið afkvæmi spíritismans og guðspekinnar eins
og þessar stefnur þróuðust á Íslandi“.26 Í Nýal má vissulega greina augljós
tengsl við starfsemi dultrúarhreyfinga hér á landi og kenningar Helga um
andlega þróun og líf á öðrum hnöttum sækja með margvíslegum hætti í
vestrænar dultrúarhefðir. Á hinn bóginn er hér horft framhjá veigamiklum
þætti raunvísindalegra rannsókna og kenninga í skrifum Helga, sem gegna
lykilhlutverki í aðgreiningu nýalsspekinnar frá trúarlegum hugmyndaheimi
spíritismans og guðspekinnar.
„Nýall þýðir: sá sem flytur hið nýja“ skrifar Helgi og fullyrðir „að
aldrei hefir verið áður á jörðu hér vitað svo og ritað.“27 Vart þarf annað
en að líta á nokkur þeirra lykilhugtaka sem eru til umræðu í Nýal til að
sannfærast um að þar er glímt við nýstárlegar hugmyndir og fjölskrúð-
ug fyrirbrigði, þ.á m. tilsvaranafræði (46), víxlmagnan (56), lífstarfsíleið-
ingu (80), verðimegund (89), svöfð (136), heilaöldur (139), víxlíleiðingu (154),
lífgeislan (161), vitmagnan (265), firðtal (277), geislritun (329), fjarskynjun
(447) og taugageislun (493). Annarlegur hugmyndaheimurinn sem tekur
á sig mynd í hugtakaforða Nýals sprettur að hluta til af því að sótt er til
23 Pétur Pétursson, „Nýalismi og dulspeki. Hugmyndafræði íslenskrar borgarastéttar
á öðrum og þriðja áratug 20. aldar“, Ritröð Guðfræðistofnunar / Studia theologica
islandica 35/2012, bls. 100–118, hér bls. 101.
24 Um jarðfræðirannsóknir og önnur vísindastörf Helga, sjá Elsa G. Vilmundardóttir,
Samúel D. Jónsson og Þorsteinn Þorsteinsson, Helgi Pjeturss og jarðfræði Íslands.
Baráttusaga íslensks jarðfræðings í upphafi 20. aldar, Garðabær: Pjaxi, 2003.
25 Pétur Pétursson, „Nýalismi og dulspeki“, bls. 101.
26 Sama rit, bls. 100.
27 Helgi Pjeturss, Nýall, bls. 242. Í framhaldinu er vísað í blaðsíðutal í Nýal innan
sviga.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“