Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 138
137
spekihreyfinga, þar sem hann var jafnvel skilgreindur sem „hin himneska
jómfrú og andleg móðir allra forma og verunda tilvistarinnar“.78
Kreppuástandi í vísindum lýkur ekki fyrr en nýtt viðmið hefur fest sig
í sessi og í tilviki ljósvakans má segja að það gerist með almennri viður-
kenningu á afstæðiskenningu Einsteins árið 1919. Þar með lýkur því ferli
umróts sem Kuhn lýsir sem undanfara vísindalegrar byltingar og viðmiða-
skipta, þegar „[e]ngu er líkara en að vísindasamfélagið hafi skyndilega flust
til annarrar plánetu þar sem kunnuglegir hlutir sjást í öðru ljósi innan um
ókunnuga hluti“.79 Með viðmiðaskiptunum fellur úr gildi megnið af þeim
fjölmörgu kenningum sem höfðu gert sig gildandi á meðan kreppuástand-
ið varði. Þar með er þó ekki sagt að kenningarnar hverfi, heldur þokast
þær af sviði viðurkenndrar vísindastarfsemi yfir á það svið óhefðbund-
inna vísinda sem kenna má við dulspeki. Hér er vert að hafa hugfast að
„dulspekileg eða esóterísk þekking er ekki í andstöðu við viðurkennda eða
exóteríska […] þekkingu, heldur í díalektísku sambandi við hana“.80 Í tilviki
Helga vekur athygli að hann gefur út fyrstu ítarlegu ritgerð sína um nýals-
spekina, „Hið mikla samband“ (1–112), einmitt á því ári þegar Einstein
skýtur upp á stjörnuhimininn.81 Segja má að örlög lífgeislakenningarinnar
séu þar með innsigluð: hún kemur fram einmitt á því sögulega andartaki
þegar kenningin um ljósvakann, sem hafði þjónað sem grundvöllur vís-
indalega ígrundaðra kenninga um geisla- og bylgjuflæði af ólíku tagi, er
við það að falla úr gildi innan vísindasamfélagsins og endar „í ruslakörfu
„hins dulræna““, svo gripið sé til orðalags Wouters J. Hanegraaff.82 Á
síðum Nýals má sjá glitta í hvörfin sem hér eru nefnd, þegar Helgi beinir
spjótum sínum að Einstein:
Menn gleypa […] við því sem er tiltölulega fánýtt, ef nógu vel eru
barðar bumburnar fyrir þeim sem flytur, eins og er ef um eitthvað
78 H.P. Blavatsky, Isis Unveiled. A Master-Key to the Mysteries of Ancient and Modern
Science and Theology, 1. bindi: Science, New York: J.W. Bouton, 1877, bls. 134.
79 Thomas S. Kuhn, Vísindabyltingar, bls. 241. Vísast er hyggilegt að láta hér fylgja
með setninguna sem kemur í beinu framhaldi hjá Kuhn: „Auðvitað gerist í raun
og veru ekkert þessu líkt; engir flutningar á milli hnatta.“
80 Andreas B. Kilcher, „Sjö þekkingarfræðilegar tilgátur um dulspeki“, bls. 179.
81 „Hið mikla samband“ hafði raunar birst árið áður sem framhaldsgrein í Þjóðólfi.
Helgi hafði einnig sett hugmyndir sínar um lífgeisla og stjörnulíffræði fram nokkuð
fyrr og má þar einkum nefna ritgerðina „Á annari stjörnu“ frá 1914. Ritgerðin „Hið
mikla samband“ myndar aftur á móti fyrsta bindi Nýals og í þeim skilningi er hér
vísað til hennar sem þess ritverks er leggi grunninn að nýalsspekinni.
82 Wouter J. Hanegraaff, Western Esotericism, bls. 127.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“