Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 140
139
spáð fyrir að verði „árið 1921“ og tengist „hinni nýju heimspeki, sem nú er
að koma upp á Íslandi“ (321–322).
Undir kynþáttahyggjunni sem ryðst fram í lýsingu Helga á átökum
íslenskrar og gyðinglegrar heimsmyndar má greina önnur átök, sem eru
léttvæg í sögulegu samhengi en varpa athyglisverðu ljósi á stöðu Nýals á
mörkum vísinda og dulspeki. Átökunum á milli afstæðiskenningarinnar
og heimsmyndafræði Nýals má þannig lýsa sem togstreitu tveggja vísinda-
viðmiða: annars vegar er kenning Einsteins sem leggur grunninn að þeirri
heimsmynd sem við þekkjum enn í dag (þótt fæst okkar botni mikið í
henni), hins vegar það viðmið sem grundvallaðist á „eðlisfræði ljósvakans“,
sem nýalsspekin grundvallast á en er við það að falla úr gildi. Þegar hér
er lögð áhersla á vísindalega ígrundun nýalsspekinnar er ekki átt við að
lífgeislafræðin hafi verið í takt við nýjustu uppgötvanir á sviði eðlisfræði
eða að kenningarnar hafi í einu og öllu gengið upp út frá ríkjandi vís-
indaþekkingu. Þar með er heldur ekki sagt að hugmyndir um ljósvakann,
sem voru á flökti innan orðræðu sálarrannsókna, guðspeki, spíritisma og
annarra dulspekihreyfinga, hafi verið í takt við nýjustu vísindalegu niður-
stöður tímabilsins. Síst af öllu er þar með gengist við tilkalli nýalsspek-
innar til vísindalegs þekkingargildis, enda er hér gengið út frá sjónarhorni
„aðferðafræðilegrar efahyggju“ (e. methodological agnosticism) sem felur í
sér að sannleiksgildi þeirra hugmynda sem greiningin beinist að er ekki
til skoðunar, heldur er sjónum aðeins beint að gerð, samhengi og virkni
þeirra hugmynda sem settar eru fram.84 Þegar litið er á átökin á milli
afstæðiskenningar Einsteins og þeirrar heimsmyndar sem liggur nýals-
spekinni til grundvallar sem átök tveggja vísindaviðmiða, er öllu heldur
átt við að hugmyndin um ljósvakann – og þar með þær kenningar um
ósýnilega geisla, bylgjur og magnan sem á henni hvíldu – var enn í umferð
innan alþýðlegrar vísindaumræðu. Kenningar sem byggðust á eðlisfræði
84 Hugtakið „aðferðafræðileg efahyggja“ er sótt í skrif Hanegraaffs, sem lýsir for-
sendum hennar á skilmerkilegan hátt: „Hið Algjöra og hið Guðlega eru einfaldlega
ekki tækt rannsóknarefni: það eina sem fræðimenn geta gert er að kanna trúar-
setningar, sannfæringar og kenningar sem hafa verið settar fram um það, en sem
fræðimenn eru þeir ekki færir um að meta hvort þær eru sannar eða ekki.“ Wouter
J. Hanegraaff, Western Esotericism, bls. 11–12; sjá einnig Wouter J. Hanegraaff,
„Empirical Method in the Study of Esotericism“, Method and Theory in the Study
of Religion 2/1995, bls. 99–129. Í skrifum Hanegraaffs er horft til dulspekihefða í
trúarlegum skilningi, en ekki er síður brýnt að fylgja „aðferðafræðilegri efahyggju“
þegar glímt er við dulspekikenningar eins og nýalsspekina, þótt þekkingarleitin
standi þar undir merkjum vísindalegs sannleika fremur en hins andlega.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“