Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 142
141
það á annan hátt. Til að semja okkur að því brosi þurfum við taka mið af
vísindalegri orðræðu þess tíma og átta okkur á því hvernig lesendur gátu
dregið mörkin á milli vísinda, trúarbragða og hugarflugs. Mörkin á milli
viðurkenndra vísinda og þeirrar þekkingar sem liggur utan sviðs þeirra
eru ekki fastmótuð heldur afurð margvíslegra málamiðlana og átaka eins
og David J. Hess hefur lýst: „[M]örk hins vísindalega eru margþætt, þeim
er stöðugt hnikað til og þau ítrekuð, til eru ólík lög hins vísindalega sem
verða greinilegri þegar varpað er ljósi á svið efahyggju og hins gervivís-
indalega bæði innan og utan þessara marka“.88 Þegar tilkall nýalsspekinnar
til vísindalegs þekkingargildis er tekið alvarlega, líkt og hér er gert, er þar
með ekki gengist við því tilkalli, heldur er sjónum einfaldlega beint að því
hvernig togast er á um skilgreiningu og afmörkun vísindalegrar þekkingar
á tilteknum tíma.
Í ríki getgátunnar: Útvíkkun raunheimsins í Nýal
Sýn Helga Pjeturss á hin nýju vísindi er sett fram með skýrum hætti í
lokakafla Nýals, sem ber sömu einkunnarorðin og heildarverkið: „Ultra
religionem, non contra“ (514). Þar vekur ekki síst athygli hvernig Helgi
lýsir nýalsspekinni sem samþættingu trúarbragða og vísinda:
Nýall heitir svo af því að hann er fyrsta bók hins nýja tíma, fyrsta
bókin á jörðu hér, sem skrifuð er af þekkingu á tilgangi lífsins. Og
á framhaldi lífsins. Því að það er ekki um þekkingu að ræða, meðan
haldið er að lifað sé áfram í andaheimi. Sú trú er dysexeliktisk, dugar
ekki til þess að komast á hina réttu leið. Meðan menn halda slíkt,
skilja þeir ekki þetta, sem er sjálft aðalatriðið, sem skilja þarf: Lífið
er þáttur einmitt í þessum heimi, og lífið á jörðu hér þáttur í öllu
lífi, en þáttur sem er að fúna og visna og mundi eyðileggjast á hrylli-
legan hátt, ef ekki næðist sú samstilling við fullkomnari verur, sem
aldrei getur tekist, meðan verið er á trúarbragðastiginu. Hér er ekki
verið á móti trúarbrögðunum, heldur lengra komið. […] Nýall veit
einmitt það, sem mönnum er mestur hugur á að vita. Hann er sigur-
bók vísindanna (514–515).
88 David J. Hess, Science in the New Age. The Paranormal, Its Defenders and Debunkers,
and American Culture, Madison: University of Wisconsin Press, 1993, bls. 145.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“