Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 150
149
innar sem hún sprettur af fela í sér áskorun fyrir þær nýrri rannsókn-
ir á dulspeki sem byggjast á kenningum og rannsóknaraðferðum af sviði
trúarbragðafræði. Frá sjónarhorni trúarbragðafræðinnar er jafnan litið á
hið trúarlega sem skilgreiningarþátt í dulspekinni og „allir þeir sögulegu
straumar sem tilheyra sviði vestrænnar dulspeki“ eru taldir vera „knúnir
áfram fyrst og fremst af undirliggjandi trúarlegri hvöt“.102 Slíkar rann-
sóknir skortir á margan hátt forsendur og aðferðir til að takast á við þátt
vísindalegra hugmynda í mótun dulspekilegra þekkingarkerfa nútímans.
Vitaskuld má greina ákveðna undirstöðuþætti í nýalsspekinni með því að
horfa til útfærslu hennar á hugmyndum er eiga rætur í gnóstík og nýplaton-
isma eða skilgreina hana sem viðleitni til að útfæra hugmyndir guðspeki og
spíritisma innan nýrrar orðræðu með vísindalegu yfirbragði. Ekki er þó
síður mikilvægt að spyrja með hvaða hætti heimsmyndafræði Nýals bygg-
ist á raunvísindakenningum sem voru í umferð á öndverðri tuttugustu öld
– að hluta til innan sjálfs rannsóknarvettvangs raunvísindanna, að hluta
til innan alþýðlegrar vísindaumræðu og að hluta til í úrvinnslu slíkra hug-
mynda innan dulspekilegra trúarhefða.103 Sé markmiðið að öðlast skilning
á þekkingarfræði nýalsspekinnar nægir ekki að líta á skrif Helga Pjeturss
sem tilbrigði við trúarlegar hugmyndir undir yfirskini vísinda, heldur er
nauðsynlegt að taka tilkall nýalsspekinnar til vísindalegs þekkingargildis
alvarlega. Við slíkan lestur afhjúpast ekki aðeins margbrotin tengsl hins
trúarlega og vísindalega í skrifum Helga, heldur kemur einnig í ljós sam-
fella í höfundarverkinu, sem teygir sig frá fyrstu ritgerðunum á sviði líf-
fræði til dulrænna lýsinga á alheimi sem er byggður framandi verum.
Um líffræði guða og djöfla: Lamarck og lífið í alheiminum
Skref Helga Pjeturss frá rannsóknum á sviði náttúruvísinda til könnunar
á dulrænum fyrirbrigðum er ekki einsdæmi í sögu vestrænnar dulspeki
Glazial-Kosmogonie, eine neue Entwicklungsgeschichte des Weltalls und des Sonnensystems
auf Grund der Erkenntnis des Widerstreites eines kosmischen Neptunismus mit einem
ebenso universellen Plutonismus, Kaiserslautern: Hermann Kayser, 1913.
102 Wouter J. Hanegraaff, Western Esotericism, bls. 69.
103 Um leið og lögð er áhersla á þátt alþýðlegrar vísindaumræðu er vert að undir-
strika það veigamikla hlutverk sem alþýðleg útgáfa og miðlun gegnir í starfi
dulspekihreyfinga nútímans, en þetta er einn þeirra meginþátta sem greinir þær
frá eldri straumum dulspeki. Sjá Mark S. Morrisson, „The Periodical Culture of
the Occult Revival. Esoteric Wisdom, Modernity and Counter-Public Spheres“,
Journal of Modern Literature 2/2008, bls. 1–22.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“