Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 153
152
opnað oss nýja heima. Nú sjáum vjer langt aftur í horfnar aldir; vér sjáum
hvernig mannkynið hefir hafizt af lágum stigum. Og vér sjáum fram.“112
Um 1910 verða áðurnefnd hvörf á höfundarferlinum og Helgi kynnir sér
trúarleg dulspekirit af kappi, vega þar þyngst rit Swedenborgs, sem hann
að eigin sögn kynnist fyrst árið 1912.113 Í einni af fyrstu greinum Helga
um Swedenborg fullyrðir hann að lýsingar sænska dulvitringsins á helvíti
og himnaríki komi „alveg heim við það sem vænta mátti, eftir kenningum
Herakleitosar, Lamarcks og Spencers“.114 Það virðist einnig vera um þetta
leyti sem Helgi sökkvir sér ofan í Tímajos Platons, hefð nýplatonismans og
skrif Plótínosar. Um 1915 fer hann loks að leggja drög að því mikla riti um
„heimsfræði“ sem síðar verður að Nýal.115
Ágripið af mótunarferli Helga dregur fram áhugaverða línu, sem liggur
frá líffræðikenningum ný-lamarckismans um hefð rómantískrar náttúru-
speki og heimspekilegrar lífhyggju eða vítalisma til dulspeki. Á mótunartíma
nýalsspekinnar sköruðust svið ný-lamarckismans, heimspekilegrar lífhyggju
og dulspeki með margvíslegum hætti. Þannig gegndu skrif lykilhöfunda á
vettvangi heimspekilegrar lífhyggju og lífheimspeki (þ. Lebensphilosophie)
mikilvægu hlutverki innan ólíkra strauma nútímadulspeki og nægir þar að
nefna verk höfunda eins og Bergsons, Schopenhauers og Nietzsches.116
Bergson sótti fyrir sitt leyti til kenninga ný-lamarckismans, sem hann lýsti
m.a. sem þeim einu á sviði líffræðinnar er horfðu til þáttar „vitundarinnar
og viljans“ og útilokuðu ekki „innra og sálfræðilegt lögmál þróunar“,117
auk þess sem hann tókst í verkum sínum á við hugmyndir um drauma,
fjarskynjun og önnur „dulræn“ fyrirbrigði, sem einnig voru til umfjöllunar
112 Sama rit, bls. 8.
113 Helgi Pjeturss, „Á annari stjörnu“, Ingólfur, 26. júlí 1914, bls. 113–115, hér bls.
114.
114 Helgi Pjeturss, „Ferðasögur úr öðrum sólkerfum“, Vísir, 30. maí 1913, bls. 1.
115 Elsa G. Vilmundardóttir, „Ævi og störf Helga Pjeturss“, bls. 73.
116 Um hefð lífheimspeki, sjá Ferdinand Fellmann, Lebensphilosophie. Elemente einer
Theorie der Selbsterfahrung, Reinbek: Rowohlt Taschenbuch, 1993. Um einstreng-
ingslegar viðtökur á verkum Bergsons á umræddu tímabili, þar sem einblínt var á
þátt andrökhyggjunnar og hugmyndir hans tengdar andlegum hefðum, sjá Mary
Ann Gillies, „Bergsonism. „Time Out of Mind““, A Concise Com panion to Modern-
ism, ritstj. David Bradshaw, Malden: Blackwell, 2003, bls. 95–115.
117 Henri Bergson, L’Évolution créatrice, París: Quadrige / PUF, 1994 [1907], bls.
77–78. Bergson nefnir hér sérstaklega rit ný-lamarckistans Edwards Drinkers
Cope, The Origin of the Fittest (Uppruni hins hæfasta, 1887) og The Primary Factors
of Organic Evolution (Frumatriði lífrænnar þróunar, 1896).
BenediKt HjaRtaRSon